Woods með sex högga forystu fyrir lokakeppnisdaginn
Tiger Woods er svo sannarlega í góðum málum fyrir síðustu holurnar á Farmers Insurance mótinu sem fram fer á Torrey Pines vellinum í Kaliforníu á PGA-mótaröðinni. Woods er samtals á 17 höggum undir pari eftir að hafa leikið fyrstu sjö holurnar á lokahring sínum. Fresta varð keppni í gærkvöldi vegna myrkurs.
Woods hefur leikið mjög vel og á sigurinn vísan. Hann er sex höggum á undan þeim Brandt Snedeker og Nick Watney sem koma jafnir í öðru sæti. Woods er þremur höggum undir pari á lokahring sínum þegar hann hefur leikið sjö holur.
Woods hefur verið í sérflokki í mótinu og gæti náð að vinna mótið í sjöunda sinn sem er ótrúlegt afrek. Hann sigraði einnig á Opna bandaríska meistaramótinu þegar mótið fór fram á vellinum árið 2008.
Lokahringurinn fer fram í dag og þarf eitthvað meiriháttar stórslys að eiga sér stað hjá Woods til að hann glutri niður þessari miklu forystu. Hér að neðan má sjá fugl hjá Woods á 4. braut á lokahringnum eftir frábært annað högg og svo vipp í holu.