Kylfukast

Kylfukast: Lexuð úr leik
Miðvikudagur 5. apríl 2017 kl. 14:00

Kylfukast: Lexuð úr leik

Að horfa á kvennagolf er góð skemmtun. LPGA mótaröðin er frábær. Ég sat límdur við skjáinn og fylgdist með undrakylfingnum Lexi Thompson í banastuði á Mission Hills vellinum í Kalifornínu. Hún var að valta yfir keppinautana á fyrsta risamóti ársins. Allt gekk henni í haginn.

Á sama tíma og ég nýt HD útsendingar Golfstöðvarinnar á lokahringnum með kaldan á kantinum situr maður að nafni Ismael Morgan Wanker í Bandaríkjum Donalds Trump að horfa á útsendingu gærdagsins. I.M. Wanker er þekktur meðal samstarfsmanna sinna sem mikill golfáhugamaður. Forgjöfin er fjórtán og hann þekkir reglurnar vel. Það hefur oft komið sér vel fyrir hann í keppnum. Undanfarin ár hefur hann hallast frekar meira að reglunum heldur en að stunda leikinn sjálfan.

Wanker vann nýlega 2.500 dollara í Nebraska happaþrennunni, en hann hefur haft það fyrir vana að kaupa fimm stykki af fimm dollara happaþrennum alla fimmtudaga eftir vinnu. Fyrir vinninginn keypti hann 80 tommu HD sjónvarp. Útsendingarnar frá golfinu eru orðnar svo frábærar. Hann vill ekki missa af neinu. Ekkert fer heldur framhjá honum.

Wanker er í krefjandi starfi í sláturhúsi. Naut og beljur mánudaga til fimmtudaga. Finnst nóg að vinna fjóra daga í viku. Þannig hefur hann heila þrjá daga til að fylgjast með mótaröðunum í golfi. Honum finnst gaman að veðja á úrslitin. Það hefur oft gefið vel af sér. Þessi helgi var þó ekki að gera sig. Hann hafði sett $50 á norsku skvísuna að vinna fyrsta risamótið.

Meðan ég smellti tappanum af einum ísköldum Bud Light yfir beinni útsendigu Golfstöðvarinnar, frussaði I.M.Wanker út úr sér Diet Kókinu í Nebraska. Hann trúði ekki því sem hann var að sjá í útsendingu gærdagsins. Hann spólaði á tímaflakkinu og horfði aftur í hægagangi. Hann stökk uppúr Lazy Boy stólnum og í tölvuna. Það var eftir allt saman von að koma hans konu örugglega í fyrsta sætið. Suzann Pettersen gæti unnið eftir allt saman.

Hann skalf meðan hann pikkaði inn netfangið [email protected]. Fyrirsögnin var: Rules breach by Lexi Thompson

Framhaldið þekkjum við. Lexi Thompson fékk dæmd á sig fjögur vítishögg þegar sex holur voru eftir á fyrsta risamóti ársins. Tvö högg fyrir að leika af röngum stað á 17. holu á þriðja hring. Önnur tvö högg voru svo fyrir að skila inn röngu skorkorti á þriðja hring. Í stað þess að vera á 16 höggum undir pari og í öruggri forystu, datt Lexi niður í 4. sæti á 12 höggum undir pari. Allt á einni holu. Þökk sé hinum glögga golfáhugamanni I.M.Wanker frá Nebraska, USA.

Allt var þetta með ólíkindum. Viðbrögð Lexi voru til mikillar fyrirmyndar. Hún barðist allt til enda og tapaði loks í bráðabana. Hún sór um sárt að hafa ekki ætlað að gera neitt rangt, mótmælti ekki dómnum og tók tapinu eins og sannur meistari. Fyrirsögnin í Morgunblaðinu var: „Sjónvarpsáhorfandi kom upp um svindl“. Ekki lýgur Mogginn.

Ég horfði af miklum áhuga á leik Manchester United og Everton. Mínir menn í United voru 0-1 undir þegar Zlatan skoraði glæsilegt mark með skalla. Línuvörðurinn lyfti flaggi sínu og markið var dæmt af. Í endursýningunni sást greinilega að Zlatan var ekki rangstæður. Ég stökk í tölvuna ritaði í miklu óðagoti.

To: [email protected]
Subject: Zlatan was not offside

Dear referee,
In my TV I saw for sure, that Zlatan was not offside. The goal should count. The score is really 1-1, but not 0-1. This can be corrected since they are still playing the game.

Best regards,
Margeir

Það stóð ekki á svarinu:

To: [email protected]
Subject: re: Zlatan was not offside

Fuck off.

Það er eftir allt kannski ekkert skrýtið að knattspyrna sé vinsælasta íþrótt í heimi. Þar sjá áhorfendur ekki um að dæma leikinn, hvorki úr stúkunni eða fyrir framan imbakassann heima.

Með golfkveðju,
Margeir Vilhjálmsson