Public deli
Public deli

Kylfukast

Kylfukast: Mesta vanvirðing íslenskrar golfsögu
Golfvöllurinn í Vestmannaeyjum.
Miðvikudagur 14. júní 2017 kl. 00:08

Kylfukast: Mesta vanvirðing íslenskrar golfsögu

Í vor kynnti Golfsamband Íslands með pompi og pragt að það hefði fyrst í heimi horfið frá þeirri kvöð að keppnishringur í golfi þyrfti að vera 18 holur. Að sögn forseta GSÍ, sem ég einhverntíma líkti við mann að nafni Kim hefur þessi tilkynning vakið heimsathygli. Yfirlýsingin um heimsathygli þessarar tilkynningar minnir óneitanlega svolítið á yfirlýsingar tvífara hans í Kóreu um yfirnáttúrulega getu sína á golfvellinum.

Nú bregður svo við að Golfsamband Íslands svo oft sem áður stendur við stóru orðin og hefur nú í samstarfi við Golfklúbb Vestmannaeyja ákveðið að Íslandsmótið í holukeppni verði leikið sem 13 holu mót. ÍSLANDSMÓTIÐ Í HOLUKEPPNI!!!! Ástæðan er sögð einhvers konar sambland af slöku ástandi golfvallarins í Vestmannaeyjum, virðingu við keppendur og því að Golfsambandið vilji sýna fordæmi. Ef svo fer fram sem horfir, verður þá Íslandsmótið í höggleik, leikið með Shoot-out fyrirkomulagi á 9. holunni á Hvaleyri?

Örninn sumar 2024
Örninn sumar 2024

Það er margt sem gerst hefur í íslensku golfi í gegnum tíðina sem seint verður talið til fyrirmyndar. Ég fullyrði þó að þessi ákvörðun sem Golfsamband Íslands hefur tekið í samstarfi við Golfklúbb Vestmannaeyja er sú aumasta sem tekin hefur verið í íslenskri golfsögu. Hún er golfhreyfingunni allri til háborinnar skammar. Meiri vanvirðingu er ekki hægt sýna keppnisfólki.

Þessi ákvörðun Golfsambandsins er sambærileg við það að KSÍ myndi senda út tilkynningu um að Bikarkeppnin yrði leikin á hálfum velli, einn línuvörður og enginn dómari.

Ég veit ekki hvort einræði ríki nú í Golfsambandinu en innan stjórnar sambandsins er að finna fólk sem ég hef nokkuð miklar mætur og álit á og mjög frambærilegur framkvæmdastjóri. Því spyr ég ykkur, Brynjar, Eggert, Kristín, Rósa, Bergsteinn, Helgi Anton, Þorgerður Katrín, Hansína, Theodór, Gunnar og Jón Júlíus. Ætlið þið virkilega að láta þetta gerast á ykkar vakt?

Með golfkveðju,

Margeir Vilhjálmsson.