Kylfukast

Stóri boli snýr aftur
Laugardagur 16. júlí 2016 kl. 06:00

Stóri boli snýr aftur

Fyrir 16 árum léku fjórir vinir á síðasta Landsmóti í golfi sem haldið var á Akureyri. Væntingar um árangur voru mismiklar en einn var talinn eiga möguleika á Íslandsmeistaratitli. Sá titill skilaði sér þó ekki í hús fyrr en ári síðar.

Einn vinanna var innan hópsins nefndur eftir heimabæ sínum. Hann átti síðar eftir að nema golfvallafræði en engan hefði grunað á þeim tíma að hann tæki síðar við stjórnartaumunum á Jaðri.

Gistingin var í boði Hinriks heitins Hilmarssonar. Á besta stað í miðbænum. Það var lykilatriði af augljósum ástæðum. Menn þurftu að geta fengið sér í tánna milli umferða og dómgæslu. 19. holan var í golfskálanum en sú 20. var á Kaffi Akureyri. Nokkrir Suðurnesjamenn voru það heppnir að búa á efri hæðinni.  Á 20. holunni voru málin krufin. Helsta deiluefnið var af hverju það væri ekkert sjónvarpað frá keppni í 1. flokki. Af hverju þyrfti öll athyglin að vera bara á meistaraflokki? Páll Ketilsson þurfti að sitja fyrir svörum. Gekk það bara vel, þótt menn væru að nálgast 10. könnu.

2. og 3. flokkur léku á Sauðárkróki og Húsavík. Þar var líka mikið fjör.

Frá því þessu frábæra móti lauk þar sem Kristín Elsa Erlendsdóttir vann sinn fyrsta og eina Íslandsmeistaratitil og Björgvin Sigurbergsson sinn þriðja af fjórum hefur mót hinna bestu eingöngu farið fram sunnan heiða. Til hefur staðið að halda Íslandsmót í höggleik á Jaðri tvisvar en frá því verið fallið vegna enduruppbyggingar golfvallarins.

En hverju er hægt að breyta á 16 árum? Í stuttu máli. Öllu. Og það sem meira er um vert. Það hefur tekist vel til. Glæsilegt æfingasvæði sem heitir Klappir. Golfskálinn og umhverfi tekið í gegn. Tvær nýjar brautir nr. 5 og 6. Í burtu falla holur sem hétu 8 og 9 og gegna nú hlutverki æfingasvæðis. Gamla 7. er nú 9. Frábær. Allar flatir vallarins hafa verið endurbyggðar en samt sem áður heldur völlurinn frábærlega öllum einkennum sínum.

Stóri boli tekur nú á móti mörgum íslenskum afrekskylfingum í fyrsta sinn. Sumir voru enn á leikskóla og jafnvel ekki fæddir um aldamótin síðustu. Þetta verður eitthvað.

Ég fór með eiginkonuna í rómantíska golfferð til að taka út vallaraðstæður. Við vorum sammála um það að Íslandsmótið í ár verður frábært. Kylfingar eiga ekki að láta einn og einn skallablett trufla sig. Boltinn rúllar þangað sem honum er púttað.  Stóri boli er Stóri boli og Hafþór Júlíus er Fjallið. Þannig að þeir sem þurfa að væla, vinsamlegast vælið heima. Ef þið eruð tilbúin í alvöru keppni, þá mætið til leiks.

Þrátt fyrir að skorkortið mitt hafi sagt 88 og ég enn og aftur tapað í hjónakeppninni er ég nokkuð viss um að ég er að fara landa titilinum.

Til hamingju Gústi, Steindór, Edwin og GA félagar allir sem að þessu hafa komið.

Þetta verður frábært. Ég hlakka til. 18 stiga hiti og logn. Þeir ljúga ekki til um veðrið þarna fyrir norðan.

Með golfkveðju,
Margeir Vilhjálmsson