Fréttir

„Ég ætla mér lengra“
Axel Bóasson. Ljósmynd: Facebook/Svenska proffstourerna
Ólafur Pálsson
Ólafur Pálsson skrifar
fimmtudaginn 12. maí 2022 kl. 14:36

„Ég ætla mér lengra“

segir Axel Bóasson eftir sigurinn á Rewell Elisefarm Challenge

Axel Bóasson úr GK, sigraði á Rewell Elisefarm Challenge á Ecco-mótaröðinni (Nordic Golf League) sem lauk fyrr í dag. Axel lék hringina þrjá á 209 höggum (68-68-73) eða á 7 höggum undir pari Elisefarm vallarins og var tveimur höggum á undan næsta manni, Nicolai Tinning frá Danmörku.

Með sigrinum tyllti Axel sér í 8. sæti stigalista mótaraðarinnar. Sigra þarf þrjú mót á mótaröðinni til að öðlast keppnisrétt á Áskorendamótaröðinni.

Í stuttu spjalli við Kylfing eftir mót sagðist Axel vera ánægður með sigurinn og spilamennskuna í síðustu mótum.

„Ég hef verið að slá vel en það hefur vantað aðeins upp á stutta spilið undanfarið sem og ákvarðanatökuna hér og þar. Ég var samt viss um að ef ég næði að skerpa á stutta spilinu myndi ég eiga góðan séns á að komast í toppbaráttu. Ég ætla mér lengra svo stefnan er auðvitað sett á tvo sigra til viðbótar eða að enda í þessum efstu fimm sætum í haust,“ segir Axel Bóasson að lokum.

Axel hyggst, eins og fleiri íslenskir kylfingar, taka þátt í úrtökumótinu fyrir Evrópumótaröðina.