Örninn #galvin
Örninn #galvin

Fréttir

10 magnaðar staðreyndir um feril Tiger Woods
Tiger Woods.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
föstudaginn 1. nóvember 2019 kl. 12:00

10 magnaðar staðreyndir um feril Tiger Woods

Tiger Woods varð um síðustu helgi sigursælasti kylfingur PGA mótaraðarinnar frá upphafi. Að því tilefni tók National Club Golfer saman 10 ótrúlegar staðreyndir um magnaðan ferli Bandaríkjamannsins.

Listinn er eftirfarandi:

1. Woods hefur unnið 82 mót í 359 tilraunum (22,8%). Ef hann væri búinn að spila í jafn mörgum mótum og Phil Mickelson (617) og væri með sama sigurhlutfall þá væru sigrarnir 141 talsins.

2. Woods hefur unnið PGA mót í 7 löndum; Bandaríkjunum, Englandi, Írlandi, Spáni, Skotlandi, Kanada og Japan.

3. Stærsti sigur Woods kom árið 2000 þegar hann vann með 15 högga mun. Woods endaði mótið á 12 höggum undir pari, Ernie Els varð annar á 3 höggum yfir pari.

4. Zozo meistaramótið var 32. sigur Woods þar sem hann vinnur með þriggja högga mun eða meira. Frá fyrsta sigri Woods kemur Phil Mickelson næstur með 12 mót.

5. Woods hefur unnið 18 heimsmót og er samtals á 283 undir pari í öllum heimsmótum sem hann hefur tekið þátt í.

6. Woods hefur 10 sinnum unnið fimm eða fleiri mót á einu ári (1999, 2000, 2001, 2002, 2003, 2005, 2006, 2007, 2009, 2013).

7. Þegar hafði unnið alla fjóra risatitlana í röð frá Opna bandaríska mótinu árið 2000 til Masters mótsins árið 2001 spilaði hann hringina 16 að meðaltali 5,4 höggum betur en meðalkylfingurinn á hverjum hring eða samtals 86 höggum betur.

8. Woods hefur 46 sinnum leitt mót eftir 54 holur og 44 sinnum unnið mót í kjölfarið.

9. Woods á metið yfir flest mót í röð í gegnum niðurskurðinn en hann komst á tímabili í gegnum 142 mót án þess að falla úr leik.

10. Woods er eini kylfingurinn frá því PGA mótaröðin hélt utan um tölfræði til að fá skolla á fyrstu þremur holum móts og vinna. 800 kylfingar hafa byrjað mót með þremur skollum í röð og einungis 16 enduðu í topp-10.