Örninn 2025
Örninn 2025

Fréttir

Áhugi fyrir stækkun Urriðavallar í 27 holur
Fimmtudagur 22. ágúst 2013 kl. 08:32

Áhugi fyrir stækkun Urriðavallar í 27 holur

Golfklúbburinn Oddur fagnaði nýverið 20 ára afmæli sínu og hefur klúbburinn gert..

Golfklúbburinn Oddur fagnar 20 ára starfsafmæli í ár

Golfklúbburinn Oddur fagnaði nýverið 20 ára afmæli sínu og hefur klúbburinn gert ýmislegt til að fagna þeim tímamótum. Oddur rekur eitt glæsilegasta golfsvæði landsins og er Urriðavöllur meðal fallegustu golfvalla landsins. Hugmyndin að stofnun GO var að gefa félögum í Golfklúbbi Oddfellowa (GOF) möguleika á að taka þátt í starfi GSÍ og ekki síður að opna Urriðavöll fyrir golfáhugamönnum. Oddur tók við rekstri golfsvæðisins af Golfklúbbi Oddfellowa fyrir nokkrum árum og leigir nú golfsvæðið af Oddfellowum. Ingi Þór Hermannsson hefur verið formaður GO frá árinu 2009 og segir að stór verkefni séu framundan hjá klúbbnum.

Örninn 2025
Örninn 2025

„Fyrstu 20 árin í sögu klúbbsins hafa verið viðburðarík og hér á Urriðavelli hefur orðið gríðarleg uppbygging. Við erum með frábæran golfvöll, golfskála, æfingasvæði og níu holu æfingavöll. Við höfum einnig verið að koma okkur upp æfingaaðstöðu innandyra í Garðabæ sem eflir okkar starf yfir vetrartímann,“ segir Ingi Þór.

„Oddur tók yfir allan rekstur fyrir nokkrum árum og leigir landsvæði, mannvirki og einnig tækjakost. Við erum í svolítið sérstakri stöðu því fimmtungur af okkar tekjum fer í að greiða leigugjöld. Það er líklega enginn golfklúbbur eða íþróttafélag hér á landi sem þarf að ráðstafa svo háum fjármunum til leigu á aðstöðu eins og við erum að gera án stuðnings viðkomandi sveitarfélags. Við höfum sótt til Garðabæjar með að fá aðstoð við þennan útgjaldalið og fáum þaðan styrki til barna- og unglingastarfs.“

Vilja stækka Urriðavöll í 27 holur

Ingi telur að næstu ár eigi eftir að verða mjög mikilvæg í sögu klúbbsins og horfir þar til mögulegrar stækkunar vallarins í 27 holur. Urriðavöllur er í dag 18 holu golfvöllur með 9 holu æfingagolfvelli. Ingi leggur mikla áherslu á að hefja viðræður við landeigendur og yfirvöld um stækkun vallarins.

„Það er okkar von að völlurinn stækki um níu holur. Við höfum þá sýn að 27 holu golfsvæði geti eflt rekstrargrundvöll klúbbsins. Það er markaður fyrir fleiri kylfinga inn í þennan klúbb. Við stækkun vallarins munu tekjur aukast hlutfallslega mun meira en kostnaðurinn við að halda úti 27 holu velli. Við þurfum að fá leyfi frá skipulagsyfirvöldum í Garðabæ og svo þarf einnig að vera fjármagn til staðar svo hægt sé að ráðast í þessa framkvæmd. Þessi mál eru til umræðu. Framkvæmdir við nýtt íbúðahverfi í Urriðaholti eru farnar aftur af stað og það verður kannski til þess að stækkun á Urriðavelli komist á dagskrá. Málið er ekki komið langt á veg. Það hafa verið lögð drög að þessum velli í teikningum en þetta er á byrjunarreit,“ segir Ingi Þór. Hann telur einnig að klúbburinn verði að draga úr leigukostnaði.

„Ef við horfum til skamms tíma þá vonumst við til þess að landeigandi verði tilbúinn til að koma til móts við okkur varðandi leigu á landsvæðinu og einnig að Garðabær standi betur og þéttar við bakið á okkur. Hjá Golfklúbbnum Oddi fer fram gríðarlega gott starf. VIð erum með 1150 félagsmenn og það er mikil prýði af Urriðavelli. Framundan eru stór verkefni en meðal annars þarf að ráðast í endurnýjun tækjakosts hjá klúbbnum. Það þarf að ráðast í mikla endurnýjun tækja. Ef við eigum að ráða við það verkefni þá þurfa forsendur að breytast. Við höfum ekki endurnýjað tæki frá því fyrir hrun og allar sláttuvélar eru komnar á tíma endurnýjunar. Við höfum lagt upp áætlun með endurnýjun á tækjum og ég viðurkenni fúslega að þetta er stór upphæð og of stór til þess að klúbburinn ráði við að óbreyttu,“ segir Ingi Þór.

Góður andi meðal félaga

Ingi Þór segir andann hjá Oddi vera mjög góðan og félagsmenn samheldna. „Andinn í klúbbnum er mjög góður. Það voru um 250 manns sem komu saman á lokahófi meistaramótsins fyrir skömmu og það segir sína sögu. Það er þétt og góð samheldni innan klúbbsins. Við heyrum það meðal okkar félaga að það er mikil ánægja með þá þjónustu sem við erum að veita. Við höfum verið að fagna 20 ára afmæli klúbbsins með ýmsum hætti og ætlum að fara í stóra golfferð erlendis í haust. Það eru um 90 manns úr klúbbnum skráðir í þá ferð,“ segir Ingi Þór.

„Ég er búinn að vera formaður í fjögur ár og þetta hefur verið mjög skemmtilegur tími. Þetta er mjög gefandi starf. Það hefur mikið breyst hjá okkur á síðustu árum. Við höfum reynt í gegnum árin að halda uppi öflugu barna- og unglingastarfi en við líðum aðeins fyrir það að hingað á Urriðavöll ganga ekki almenningssamgöngur. Við þurfum að treysta á að foreldrar aki börnunum sínum hingað til okkar.“

Ingi starfar sem forstöðumaður innanlandsreksturs hjá Samskipum. Hann segir að starf sitt fari vel saman með formennsku hjá Oddi. „Ég er þannig stemmdur að ég mun gefa áfram kost á mér sem formaður á meðan ég hef gaman af þessu. Það er ýmsum verkefnum ólokið og ég vil taka þátt í að ljúka þeim. Við erum með mjög gott starfsfólk sem sinnir daglegum rekstri. Það gefur okkur stjórnarmönnum tækifæri til að sinna félagsstarfinu og horfa til framtíðar.“


Fjöldi félaga kom saman í afmælisathöfn klúbbsins fyrr í sumar. Mynd/GO.

Horfir björtum augum til framtíðar

Ingi Þór segir að næstu ár eigi eftir að hafa mikla þýðingu fyrir framtíð klúbbsins. „Ég vona að næstu fimm ár eigi eftir að verða klúbbnum góð. Ef klúbburinn á að vera sjálfbær og geta greitt hóflegt endurgjald fyrir aðstöðuna þá er hann mun betur í stakk búinn til þess með 27 holur en 18. Það er von mín og trú að þetta fari af stað á næstu árum. Golf á samleið með annarri útivist eins og dæmin sanna. Við sjáum jafnframt fyrir okkur að hægt væri að nýta þessar nýju golfbrautir sem gönguskíðasvæði yfir vetrartímann og þannig verði enn frekar stuðlað að fjölbreyttri útivist og heilbrigðum lífsstíl í þessu glæsilega umhverfi okkar, sumar sem vetur. Við horfum einnig til þess að eldri borgarar sem eru hættir að vinna er ört stækkandi hópur landsmanna. Við viljum sinna þeim hópi eins vel og við getum - ekkert síður en börnum og unglingum.“