Fréttir

Andri Þór og Guðrún Brá best á Hlíðavelli
Guðrún Brá sigraði eftir sex holu bráðabana við Ólafíu Þórunni Kristinsdóttur. kylfingur.is/PállKetilsson.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
mánudaginn 18. maí 2020 kl. 11:06

Andri Þór og Guðrún Brá best á Hlíðavelli

Guðrún Brá Björgvinsdóttir og Andri Þór Björnsson sigruðu á Ísam-mótinu sem var hluti af heimslistamótaröðinni á Hlíðavelli í Mosfellsbæ. Mótið var 54 holur og var leikið laugardag og sunnudag.

Guðrún Brá og Ólafía Þórunn Kristinsdóttir háðu harða keppni í kvennaflokki en þær voru jafnar eftir 54 holur á tveimur undir pari. Þær þurftu að fara í bráðabana og úrslitin réðust ekki fyrr en eftir sex holur en þá fagnaði Guðrún Brá sigri. Þær léku fyrst 10. braut, fengu báðar par þar en síðan 9. holu þar til úrslit réðust en í fimmtu tilraun fékk Guðrún par en Ólafía skolla. Þær tvær voru í algerum sérflokki en í 3. sæti varð Ragnhildur Kristinsdóttir, GR á tíu yfir pari. „Ég var að leika stöðugt og gott golf og það var gaman að ná að klára þetta í löngum bráðbana,“ sagði Guðrún Brá.

Andri Þór lék stöðugt golf alla þrjá hringina og vann upp tveggja högga forskot hins unga Dagbjarts Sigurbrandssonar í lokahringnum. Þá lék Andri á -2 eða 70 höggum en Dagbjartur á 75 höggum en hann endaði í 2. sæti. Þeir Andri og Dagbjartur eru báðir í Golfklúbbi Reykjavíkur. Heimamennirnir Kristófer Karl Karlsson og Björn Óskar Guðjónsson enduðu í 3.-4 sæti á -2 og Haraldur Franklín kom í 5. sæti á einu höggi undir pari en hann átti besta lokahring allra, 69 högg, 3 undir.

Aðstæður voru mjög góðar á Hlíðavelli en kylfingar mæta aftur til leiks um næstu helgi þegar fyrsta mótið á GSÍ-mótaröðinni fer fram. Fjöldi áhorfenda mættu í Mosfellsbæinn og nutu þess að horfa á bestu kylfinga landsins.

Heildarúrslit má sjá hér.

Andri Þór á 9. flöt en þar setti hann niður pútt fyrir fugli. 

Ólafía Þórunn háði harða baráttu við Guðrúnu Brá.

Fjölmargir áhorfendur mættu á Hlíðavöll.

Heimslistamót ÍSAM á Hlíðavelli