Fréttir

Átti erfitt með að komast í skóna fyrir lokahringinn
Pablo Larrazabal.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
sunnudaginn 1. desember 2019 kl. 19:53

Átti erfitt með að komast í skóna fyrir lokahringinn

Það var mikil dramatík á lokahring Alfred Dunhill meistaramótsins sem fór fram í Suður-Afríku í dag á Evrópumótaröð karla.

Spánverjinn Pablo Larrazabal fagnaði sigri í mótinu en hann lék fyrstu holur lokahringsins mjög illa en bætti upp fyrir það með frábærum endaspretti.

Í viðtali eftir lokahringinn tjáði Larrazabal blaðamönnum að hann hefði átt erfitt með að komast í skóna útaf blöðru á tánni.

„Ég vaknaði í morgun og hélt að ég væri ekki að fara spila,“ sagði Larrazabal. „Ég komst ekki í skóna, ég gat ekki labbað að bílnum. 

Ég var í vandræðum á fyrri níu, ég er með stóra blöðru á tánni en ég sagði við sjálfan mig að ef Tiger gat unnið Opna bandaríska á öðrum fæti... og hélt áfram að berjast.“

Larrazabal hafði ekki unnið mót á Evrópumótaröðinni frá árinu 2015 þegar kom að móti helgarinnar. Hann er nú kominn með 5 sigra á þessari sterkustu mótaröð Evrópu.