Axel í forystu | 12 kylfingar léku undir pari
Atvinnukylfingurinn Axel Bóasson er með eins höggs forystu eftir fyrsta hringinn á Íslandsmótinu í golfi sem fram fer í Vestmannaeyjum. Axel lék fyrsta hringinn á 5 höggum undir pari en hann stefnir á sigur í þriðja sinn á Íslandsmótinu.
Spilamennska Axels á hringnum var nokkuð jöfn og stöðug en nánar má lesa um hringinn hans með því að smella hér.
Höggi á eftir Axel eru tveir kylfingar, þeir Björn Óskar Guðjónsson, GM, og Aron Emil Gunnarsson, GOS. Báðir léku þeir á 66 höggum en Aron Emil gerði sér lítið fyrir og fékk heila 43 punkta á hringnum.
Heimamaðurinn Örlygur Helgi Grímsson er í fjórða sæti ásamt tveimur kylfingum á þremur höggum undir pari. Örlygur fékk tvo skolla á fyrstu þremur holunum en var á fimm höggum undir pari næstu 15 holur.
Einn heitasti kylfingur landsins um þessar mundir, Haraldur Franklín Magnús, lék fyrsta hringinn á 72 höggum eða 2 höggum yfir pari og er jafn í 23. sæti.
Alls léku 12 kylfingar í karlaflokki undir pari á fyrsta hringnum við misjafnar aðstæður. Framan af degi var frábært veður en um miðjan dag fór að hvessa og rigna. Seinni partinn rættist svo aftur úr veðrinu.
Annar hringur Íslandsmótsins fer fram á morgun. Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.
Staða efstu kylfinga í karlaflokki:
1. Axel Bóasson, GK, 65 högg
2. Björn Óskar Guðjónsson, GM, 66 högg
2. Aron Emil Gunnarsson, GOS, 66 högg
4. Örlygur Helgi Grímsson, GV, 67 högg
4. Hlynur Bergsson, GKG, 67 högg
4. Arnór Ingi Finnbjörnsson, GR, 67 högg
Björn Óskar Guðjónsson lék vel í dag.
Ísak Jasonarson
[email protected]