Örninn/kerrur
Örninn/kerrur

Fréttir

Axel og Ólafía fögnuðu sigri á Íslandsmótinu í holukeppni
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
sunnudaginn 21. júní 2020 kl. 16:39

Axel og Ólafía fögnuðu sigri á Íslandsmótinu í holukeppni

Þau Axel Bóasson úr Golfklúbbnum Keili og Ólafía Þórunn Kristinsdóttir úr Golfklúbbi Reykjavíkur fögnuðu sigri á Íslandsmótinu í holukeppni sem lauk í dag á Jaðarsvelli hjá Golfklúbbi Akureyrar.

Úrslitaleikurinn í karlaflokki var á milli þeirra Axels og Hákons Arnar Magnússonar. Mikil spenna var í leiknum og skiptust þeir félagar á að hafa forystu. Svo fór þó að lokum að Axel hafði betur eftir frábæran endasprett þar sem hann vann upp tveggja holu forystu Hákons. Þetta var í annað skiptið sem Axel vinnur mótið en síðast gerði hann það árið 2015 þegar mótið fór síðast fram á Jaðarsvelli.

Í úrslitaleiknum hjá konunum sýndi Ólafía mátt sinn og megin með öruggum sigri á Evu Karenu Björnsdóttur. Ólafía kláraði leikinn 4/3 og til marks um yfirburði hennar í mótinu þá fór hún aldrei lengra en á 15. holu. Þetta er í þriðja skiptið hún fagnar sigri í þessu móti en hún vann bikarinn einnig árið 2011 og 2013.

Í leikjunum um þriðja sætið höfðu þau Guðmundur Ágúst Kristjánsson og Ragnhildur Kristinsdóttir betur. Guðmundur hafði betur gegn Ólafi Birni Loftssyni 4/3 og Ragnhildur hafði betur gegn Guðrúnu Brá Björgvinsdóttur 5/4.


Axel Bóasson.