Fréttir

Bestu höggin árin 2010-2019: 10. sæti
Rickie Fowler.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
miðvikudaginn 11. desember 2019 kl. 21:45

Bestu höggin árin 2010-2019: 10. sæti

Fjölmiðillinn Fansided hefur tekið saman hvaða tíu högg stóðu upp úr á áratugnum 2010-2019. Næstu daga mun Kylfingur greina frá því hvaða 10 högg það eru og fjalla um hvert og eitt högg.

10. sæti: Rickie Fowler, 17. hola, TPC Sawgrass, 2015 Players meistaramótið

Höggið sjálft var líklega ekki eitt af bestu höggunum á áratugnum, stutt járnahögg um tvo metra frá holu, en tímapunkturinn og aðstæðurnar gera höggið eitt af því eftirminnilegasta á umræddu tímabili þar sem Fowler var í bráðabana um sigur á Players meistaramótinu.

Stuttu fyrir mótið hafði könnun verið gerð opinber þar sem greint var frá því að félagar Fowler á PGA mótaröðinni töldu hann þann ofmetnasta á mótaröðinni. Það hefur greinilega kveikt í Fowler sem lék frábært golf í mótinu.

Fowler var fimm höggum á eftir Garcia þegar sex holur voru eftir á sunnudeginum en fékk fugla á 13. og 15. holu áður en hann fékk örn á 16. holu og annan fugl á 17. holu. Fowler, Kisner og Garcia enduðu allir jafnir á 12 höggum undir pari og þurftu því að fara í bráðabana.

Á fyrstu holu bráðabanans fengu þeir Fowler og Kisner fugl og því var Garcia úr leik. Aftur héldu þeir Fowler og Kisner á 17. holu og þá sló Fowler umrætt högg, um tvo metra frá holu og setti niður púttið stutta fyrir sigri í mótinu.