Hellishólar
Hellishólar

Fréttir

Bestu höggin árin 2010-2019: 9. sæti
Rory McIlroy.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
fimmtudaginn 12. desember 2019 kl. 09:00

Bestu höggin árin 2010-2019: 9. sæti

Fjölmiðillinn Fansided hefur tekið saman hvaða tíu högg stóðu upp úr á áratugnum 2010-2019. Næstu daga mun Kylfingur greina frá því hvaða 10 högg það eru og fjalla um hvert og eitt högg.

Sjá einnig: 10. sæti.

9. sæti: Rory McIlroy, 16. hola, East Lake, 2016 Tour Championship

Þegar McIlroy mætti á 16. holuna á lokamóti tímabilsins á PGA mótaröðinni árið 2016 var Norður-Írinn þremur höggum á eftir Kevin Chappell og tveimur höggum á eftir Ryan Moore.

McIlroy var í harðri baráttu um að enda tímabilið sem stigameistari og vildi enda tímabilið á sigri. Því kom fullkomið innáhögg hans á 16. holu á hárréttum tímapunkti.

16. holan er rúmlega 400 metra löng par 4 hola en McIlroy sló frábært upphafshögg og átti þaðan um 124 metra eftir sem hann sló í holu. Stuttu seinna fékk Chappell skolla á 17. holu og allt í einu var McIlroy búinn að jafna við efstu menn.

McIlroy fór að lokum í bráðabana gegn þeim Chappell og Moore um sigurinn og eftir þrjár holur héldu þeir aftur á 16. holu þar sem McIlroy setti niður frábært pútt fyrir sigri og stigameistaratitlinum í leiðinni.