Fréttir

Böðvar og María sigruðu á Heimslistamótaröðinni á Leyni
María Björk Pálsdóttir og Böðvar Bragi Pálsson.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
sunnudaginn 13. september 2020 kl. 17:59

Böðvar og María sigruðu á Heimslistamótaröðinni á Leyni

Annað og næst síðasta mót ársins á Heimslistamótaröðinni í golfi fór fram hjá Golfklúbbnum Leyni um helgina. Alls voru leiknir þrír hringir í mótinu og réðust úrslitin í dag en GR-ingurinn Böðvar Bragi Pálsson og María Björk Pálsdóttir úr GKG fögnuðu sigri.

Böðvar Bragi lék hringina þrjá á tveimur höggum undir pari og fagnaði að lokum fjögurra högga sigri. Böðvar lék lokahringinn á 70 höggum en hann fór á kostum á öðrum hringnum þegar hann spilaði á 66 höggum. 

Egill Ragnar Gunnarsson úr GKG endaði í 2. sæti á tveimur höggum yfir pari, tveimur höggum á undan Inga Þór Ólafsyni GM sem endaði í 3. sæti.

Í kvennaflokki sigraði María Björk á 23 höggum yfir pari í heildina. Hún lék seinni tvo hringi mótsins á 79 höggum sem voru tveir af bestu hringjunum í kvennaflokki.

Arna Rún Kristjánsdóttir GM endaði í 2. sæti á 30 höggum yfir pari og Bjarney Ósk Harðardóttir GR endaði í 3. sæti á 33 höggum yfir pari.

Hér er hægt að sjá lokastöðuna.

Heimslistamótin eru ætluð áhugakylfingum og gilda sömu forgjafarmörk og í stigamótum GSÍ, þ.e. 5,5 hjá körlum og 8,5 hjá konum. Hámarksfjöldi keppenda er 39 manns og eru leiknar 54 holur á 2-3 dögum.

Tilgangur mótanna er að skapa frekari vettvang fyrir keppni afrekskylfinga á Íslandi og munu mótin gilda á heimslista áhugamanna.

Lokamótið á Heimslistamótaröðinni fer fram helgina 25.-26. september hjá Golfklúbbi Reykjavíkur.