Örninn sumar 2024
Örninn sumar 2024

Fréttir

Camellia erfiðust
Fimmtudagur 30. mars 2023 kl. 07:18

Camellia erfiðust

Augusta National í Georgíu í Bandaríkjunum er einn frægasti golfvöllur í heimi þótt fáir kylfingar hafi fengið að njóta þess að leika hann. Augusta er heimavöllur Masters mótsins í golfi. Masters mótið verður leikið 6.-9. apríl næstkomandi og er að margra mati skemmtilegasta risamótið. Spennan fyrir mótinu magnast en þar munu leikmenn á LIV og PGA mótaröðinni mætast í fyrsta skipti.

Völlurinn er mjög erfiður en eftir um níu áratuga sögu Masters mótanna sýna tölulegar staðreyndir fram á að þetta eru þrjár erfiðustu holurnar á vellinum. Allar holur vallarins bera blómanöfn enda völlurinn rómaður fyrir fallegt umhverfi og mikla blómaskrúð. 

Örninn sumar 2024
Örninn sumar 2024

Camellia 10. braut - 451 metri par 4.

Meðalskor: 4.30

Auðveldust árið 2018: 4,08

Erfiðust árið 1956: 4,69

Árið 2011 sló Rory McIllroy teighögg lengst til vinstri sem mætti telja eitt versta teighögg sögunnar á þessari braut og lauk leik á 7 höggum. Frægasta atvikið er þó án nokkurs vafa þegar Scott Hoch átti  í Masters 1989 um hálfsmetra pútt fyrir pari til að sigra Nick Faldo í umspili en púttaði framhjá. 

White Dogwood 11. braut 468 metra par 4.

Meðalskor 4,30

Auðveldust árið 1995: 4,06

Erfiðust árið 1956: 4,64

Holan var fræg árið 1996 þegar Greg Norman fékk sinn þriðja skolla í röð  áður en hann fékk skramba á 12. og missti 7 högga forystu í Masters mótinu yfir til Nick Faldo. Mesta klúður á þessari braut á þá án nokkurs vafa Raymond Floyd árið 1990 þegar hann sló innáhögg með 7 járni í vatnið fyrir framan flötina og tapaði umspili gegn Nick Faldo.

Flowering Crab Apple 4. braut - 216 metrar par 3.

Meðalskor 3,28

Auðveldust 2020: 3,08

Erfiðust 1956: 3,49

Hola í höggi hefur sést 27 sinnum í sögu Masters mótanna á þeim fjórum par 3 holum sem á vellinum eru. Einungis einu sinni hefur það gerst á 4. braut. Það högg sló Jeff Sluman árið 1992. Fyrsta par 3 hola vallarins sú fjórða er kannski ekki sú fallegasta, en hún er sú erfiðasta.

Á sunnudeginum árið 2012 sló Phil Mickelson teighöggið sitt í áhorfendapallana og þaðan í trjábeð. Phil hjakkaði í trjánum með hægri handar sveiflu og niðurstaðan varð 6 högg. Þrefaldur skolli og Phil missti af umspili með tveimur höggum. Bubba Watson sigraði.