Charles Barkley: „Það styttist í tíma Tiger Woods aftur“
Fyrrverandi körfuboltastjarnan, golffíkillinn og vinur Tiger Woods, Charles Barkley segir að vinur sinn eigi eftir að vinna fleiri risamót í framtíðinni.Woods hefur unnið þrjú mót á PGA mótaröðinni í ár og virðist vera að nálgast sitt gamla form eftir mikla erfileika í einkalífinu og erfið meiðsli.
Barkley segir að Tiger eigi brátt eftir að vinna risamót aftur þótt að hann efist um að Tiger eigi eftir að einoka golfíþróttina eins og hann gerði einu sinni. „Það styttist í tíma Tiger Woods aftur og hann á eftir að vinna nokkur risamót í viðbót. Málið er samt að það eru svo rosalega góðir ungir kylfingar á PGA mótaröðinni að ég held að hann eigi ekki eftir að verða með sömu yfirburði aftur þar sem hann vinnur nánast allt. Það er komin ný kynslóð af mögnuðum kylfingum sem gera allt eins og Tiger Woods gerir. Hann setti ný viðmið fyrir golfíþróttina en það hafa aldrei verið jafn hæfileikaríkir kylfingar áður á mótaröðunum. Það er að hluta til honum að þakka og nú þarf hann að reyna að sigra þá.“
Næsta mót hjá Tiger verður Bridgestone Invitational sem fram fer á Firestone vellinum í Ohio en mótið er hluti af heimsmótaröðinni í golfi. Eftir það er komið að fjórða risamóti ársins, PGA meistaramótinu sem fer fram á sögufræga Hafvellinum á Kiawah eyju 9-12 ágúst.