Fréttir

DeChambeau: Ég vann golfvöllinn
Bryson DeChambeau. Mynd: golfsupport.nl.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
þriðjudaginn 22. september 2020 kl. 14:45

DeChambeau: Ég vann golfvöllinn

Bryson DeChambeau sigraði um helgina á Opna bandaríska mótinu sem fór fram á hinum erfiða Winged Foot golfvelli í Bandaríkjunum.

DeChambeau var sá eini í mótinu sem endaði undir pari en hann spilaði samtals á 6 höggum undir pari, sex höggum betur en Matt Wolff sem endaði annar.

DeChambeau var í skemmtilegu viðtali við Golf Channel eftir sigurinn þar sem hann fór yfir hina ýmsu hluti eins og sjá má í myndbandinu hér fyrir neðan.

Á meðal þess sem hann var spurður út í var hvort honum hafi fundist hann vinna þá 143 kylfinga sem spiluðu með honum í mótinu eða golfvöllinn.

„Ég vann golfvöllinn. Þetta var svo erfitt próf. Maður þurfti fulla einbeitingu á hverri einustu holu, maður þurfti að missa boltann á réttan stað, vera á réttum stað, og setja niður fullt af púttum.“

DeChambeau er töluvert lengri af teig en meðalmaðurinn og telur hann að sá styrkleiki hans hafi komið sér vel á Winged Foot vellinum og talar hann jafnframt um það seinna í viðtalinu að svo sé ekki endilega alltaf raunin en þó oftast.

„Mér finnst eins og að ég hafi getað nýtt mér hversu langt ég slæ með drævernum því það var betra koma sér þaðan sem ég sló inn á miðja flöt með fleygjárni í staðinn fyrir að slá styttra af teig og jafnvel ekki hitta brautina og eiga þá 6, 5 járn eftir og þá ekki eiga möguleika á að komast inn á flöt.“

Eftir Covid-19 hlé á PGA mótaröðinni fyrr á árinu kom DeChambeau nokkrum kílóum þyngri til leiks og með breytta sveiflu. Hann hafði nýtt tímann vel til að bæta á sig vöðvamassa og var orðinn einn sá allra högglengsti á mótaröðinni. Hafði hann á einhverjum tímapunkti áhyggjur af umræðu annarra kylfinga og efasemdir þeirra á þessum breytingum?

„Þetta hefur verið svona frá fyrsta degi þegar ég talaði um að vera mögulega með sömu lengd á öllum járnakylfunum. Meira að segja pabbi sagði: „Nei, það er ekki möguleiki að þú gerir það.“ Frá því að ég var 17 ára hefur þetta verið svona og ég hef stundum tekið því vel og stundum ekki.“