Fréttir

Dustin Johnson gerir nýjan langtímasamning við TaylorMade Golf
Dustin Johnson.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
fimmtudaginn 7. janúar 2021 kl. 21:57

Dustin Johnson gerir nýjan langtímasamning við TaylorMade Golf

Aðeins nokkrum dögum eftir að hafa tilkynnt um brotthvarf Jon Rahm er TaylorMade Golf búið að tryggja samstarf sitt við besta kylfing heims, Dustin Johnson til næstu ára. Johnson hefur nú skrifað undir langtímasamning við TaylorMade Golf.

Johnson er að hefja sitt 14. tímabil á PGA mótaröðinni og hefur hann leikið með kylfum frá TaylorMade Golf allt frá byrjun atvinnumannaferilsins með frábærum árangri. Á þeim tíma hefur hann unnið 24 mót á PGA mótaröðinni og þénað yfir 70 milljónir dollara.

Hann hefur einnig setið í efsta sætinu í samtals 111 vikur sem er þriðji lengsti tími sem nokkur kylfingur hefur setið í efsta sætinu. Aðeins Greg Norman og Tiger Woods hafa verið lengur í efsta sætinu.

„Með allar þær áskoranir sem 2020 hafði upp á að bjóða þá var þetta eitt besta árið mitt. TaylorMade stóð við bakið á mér allan tímann, alveg eins og þeir hafa gert allan minn feril. Það er ekki betri kylfuframleiðandi til, sérstaklega ekki fyrir okkur kylfingana á mótaröðinni. Ég er spenntur fyrir áframhaldandi samstarfi um ókomna framtíð.“