Fréttir

Enn einn sigur hjá nýliða
Frábær sigur hjá Svenson. Mynd/Getty.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
sunnudaginn 24. mars 2024 kl. 16:41

Enn einn sigur hjá nýliða

Enn koma nýir sigurvegarar fram á sjónarsviðið. Svíinn Jesper Svenson vann sitt fyrsta mót eftir bráðabana  á DP mótaröðinni í Singapore um helgina en leikið var á Laguna National golf resort vellinum.

Svenson var fimm höggum frá forystu þegar lokadagurinn rann upp. Svíinn var í miklu stuði og hrúgaði inn fuglum og erni og komst í toppbaráttuna. Hann lék lokahringinn á níu höggum undir pari, 63 höggum og endaði jafn Tælendingnum Kiradech Aphibarnrat.

Þeir þurftu að leika 18. holuna í bráðabana þrisvar en í þriðja skipti lenti Aphibarnrat í vandræðum og tapaði höggi. Svínn gerði hins vegar ekki mistök og tryggði sér sinn fyrsta sigur á mótaröð þeirra bestu í Evrópu.

Svenson var á Áskorendamótaröðinni í fyrra, vann þar eitt mót og var þrisvar í 2. sæti og endaði í 5. sæti á stigalistanum. Fékk þannig þátttökurétt á DP mótaröðinni þar sem hann hefur byrjað mjög vel. Þetta var aðeins hans 14. mót á mótaröðinni en hann hafði tvisvar lent í 2. sæti. Nú er hann kominn í hóp sigurvegara og það tryggir honum þátttökurétt í tvö ár á mótaröðinni.

Nokkrir kylfingar af Áskorendamótaröðinni (Challenge tour) hafa komið inn með krafti og náð mjög góðum árangri á fyrsta ári á DP mótaröðinni. Haraldur Franklín, Guðmundur Ágúst Kristjánsson og Axel Bóasson eru allir með þátttökurétt á Áskorendamótaröðinni. 

Lokastaðan.