Fréttir

Ernie Els með Guðmundi á Áskorendamótaröðinni
Ernie Els.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
miðvikudaginn 12. febrúar 2020 kl. 08:00

Ernie Els með Guðmundi á Áskorendamótaröðinni

Þriðja og síðasta mótið á þessu tímabili í Suður-Afríku á Áskorendamótaröðinni fer fram dagana 13.-16. febrúar.

Guðmundur Ágúst Kristjánsson er á meðal keppenda í mótinu en hann hefur einnig leikið í fyrstu tveimur mótunum. Í fyrsta mótinu komst Guðmundur ekki í gegnum niðurskurðinn en í því seinna komst hann áfram og endaði í 63. sæti á tveimur höggum yfir pari í heildina.

Mót vikunnar, sem ber heitið Dimension Data Pro/Am, er óvenju sterkt á mælikvarða Áskorendamótaraðarinnar en auk bestu kylfinga mótarðarinnar má sjá nokkur kunnugleg nöfn heimamanna sem eru með.

Frægasta nafnið er án efa fjórfaldi risameistarinn Ernie Els eða „Big Easy“ eins og hann er jafnan kallaður. Els er auðvitað kominn yfir hátind ferilsins en hann situr í dag í 476. sæti heimslistans og keppir reglulega á Evrópu- og PGA mótaröðinni. Þrátt fyrir það vekur það athygli að hann skuli taka þátt í mótinu.

Aðrir þekktir kylfingar sem eru með í mótinu eru Christiaan Bezuidenhout, George Coetzee, Brandon Stone og Darren Fichardt. Allir hafa þeir unnið mót á Evrópumótaröðinni en Fichardt hefur unnið fimm mót, Stone og Coetzee fjögur og Bezuidenhout sigraði á sínu fyrsta móti í haust og tapaði í bráðabana um sigur í Dúbaí.

Mótið hefst á fimmtudaginn og lýkur á sunnudaginn. Eftir þrjá hringi verður skorið niður og komast þá um 60 kylfingar áfram.

Hér er hægt að sjá keppendalista mótsins.


Christiaan Bezuidenhout.


Brandon Stone.