Fjórfaldur meistari sýndi gamla takta
Björgvin Sigurbergsson, fjórfaldur Íslandsmeistari í höggleik rifjaði upp gamla takta þegar hann tryggði Keilismönnum sigur á Íslandsmóti golfklúbba hjá eldri kylfingum. Hann lék gegn Guðmundi Arasyni í Golfklúbbi Reykjavíkur í lokaumferðinni og í lokaleik umferðarinnar og hafði betur á 2. braut í bráðbana.
Guðmundur var eina holu upp þegar kapparnir stóðu á 18. teig. Báðir áttu góð innáhögg en þó um 8-10 metra frá holu. Guðmundur púttaði að holu og tryggði par en gamli meistarinn úr Hafnarfirði gaf sér góðan tíma til að skoða púttlínuna sem var í smá halla. Hann púttaði ákveðið og boltinn fór á mikilli ferð í miðja holu sem tryggði honum bráðbana við GR-inginn Guðmund. Magnað pútt á ögurstundu. Eitthvað sem Björgvin hefur gert áður.
Þeir fóru í bráðabana og léku 1. brautina og þar var Guðmundur nær því að fá fugl en hvorugur setti boltann í holu þannig að þeir héldu upp á hina stuttu en ekki auðveldu 2. braut sem er ekki nema rétt rúmir 100 metrar að lengd, par 3. Björgvin sló í flatarkant en Guðmundur missti höggið í glompu hægra megin og glompuhöggið endaði um 5 metra frá fyrir ofan holu. Björgvin púttaði heldur ákveðið og var tæpa tvo metra frá í hliðarhalla fyrir parinu. Guðmundur náði ekki að setja púttið ofan í en Björgvin gerði betur og setti púttið ofan í holu og tryggði Keili sigur í skemmtilegri viðureign.
Hamarsvöllur skartaði sínu fegursta en það er óhætt að segja að þar sé unnið frábært starf í að gera völlinn og umhverfið fallegra og betra á hverju ári.
Guðmundur Arason óskar Björgvini til hamingju.
Keilismenn fögnuðu kampakátir með sigurinn.