Fleetwood í fararbroddi á Opna breska
Tommy Fleetwood frá Englandi var efstur eftir fyrsta hluta Opna breska áhugamannamótsins, en hann lék seinni hringinn í höggleiknum óaðfinnanlega, eða á 65 höggum, og hringina tvo á alls sjö höggum undir pari.
Fleetwood, sem er 19 ára gamall og fyrrum keppandi í Walker Cup, er með tveggja högga forskot á næstu menn, en það eru þeir Ian Winstanley, Tom Lewis og James Byrne.
Holukeppnin er nú hafin en keppni lýkur á laugardag þar sem sigurvegarinn verður krýndur. Sá mun feta í fótspor Matteo Manasseros, sem sigraði í fyrra. Fyrir utan þann mikla heiður sem fylgir því að sigra á þessu móti, fær sigurvegarinn þátttökurétt á tveimur sögufrægustu og virðulegustu golfmótum heims, Opna breska meistaramótinu og Masters á Augusta National.
Fleetwood, sem er í tíunda sæti á heimslista áhugamanna, varð einmitt í öðru sæti á eftir Manassero í fyrra.
Eins og flestir vita var Ólafur Loftsson meðal keppenda á þessu móti, en féll úr leik í gær þar sem hann lenti í 119.sæti á fjórum höggum yfir pari.
Hér má sjá úrslit úr höggleiknum og viðureignirnar í holukeppninni.
Myndir/Golfsupport.nl og R&A