Fréttir

Fowler sló í dómara og þaðan út af vellinum
Rickie Fowler.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
sunnudaginn 21. júlí 2019 kl. 18:58

Fowler sló í dómara og þaðan út af vellinum

Opna mótið, fjórða og síðasta risamót ársins, kláraðist fyrr í dag og var það Írinn Shane Lowry sem fagnaði sex högga sigri. Þetta var hans fyrsti risatitill en nánar má lesa um lokahringinn hérna.

Einn af kylfingunum sem vonuðust eftir að eiga góðan dag og setja þannig smá pressu á Lowry var Bandaríkjamaðurinn Rickie Fowler. Hann var fyrir daginn átta höggum á eftir Lowry á átta höggum undir pari en þar sem veður var erfitt var alveg möguleiki fyrir Fowler að brúa það bil með góðum hring.

Það byrjaði þó ekki vel fyrir Fowler í dag en á fyrstu holunni er vallarmörk bæði hægra og vinsta megin við brautina. Fowler sló teighöggið sitt aðeins til vinstri og lenti boltinn þar í dómara og skaust hann þaðan út af vellinum. Sannarlega mikil óheppni og endaði Fowler á að fá tvöfaldan skolla. Hann lék lokahringinn á 74 höggum, eða þremur höggum yfir pari, og endaði hann jafn í sjötta sæti á fimm höggum undir pari. Eftir hringinn sagði Fowler að hann hefði ekki vitað hvað hafi gerst fyrr en síðar á hringnum.

„Þetta er ömurlegt. Það er ágætt að ég vissi þetta ekki strax því þá hefði ég orðið mjög pirraður.“