Prósjoppan
Prósjoppan

Fréttir

Frábær dagur hjá Haraldi á Novo Sancti Petri
Haraldur Franklín Magnús.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
fimmtudaginn 12. nóvember 2020 kl. 14:43

Frábær dagur hjá Haraldi á Novo Sancti Petri

Haraldur Franklín Magnús lék vel á öðrum degi Andalucía Challenge de Cadíz mótinu sem fram fer á Áskorendamótaröðinni. Leikið er á Novo Sancti Petri golfsvæðinu sem er mörgum Íslendingum kunnugt þar sem golfferðir hafa verið farnar þangað um margra ára skeið.

Hringurinn hjá Haraldi er einn af þeim betri í dag en hann kom í hús á 70 höggum, eða tveimur höggum undir pari. Með hringnum tryggði hann sig örugglega áfram en niðurskurðurinn miðast við þá kylfinga sem eru á fjórum höggum yfir pari og betur.

Haraldur fékk fjóra fugla á hringnum í dag, þar af þrjá á fyrstu níu holunum. Á móti fékk hann tvo skolla, einn á fyrri níu holunum og einn á þeim síðari. Hann er því samtals á parinu eftir tvo hringi en í gær lék hann á tveimur höggum yfir pari. Eins og staðan er núna er Haraldur jafn í 26. sæti en margir kylfingar eiga enn eftir að ljúka leik.

Guðmundur Ágúst Kristjánsson er einnig á meðal keppenda. Hann hefur lokið við níu holur í dag og er á þremur höggum yfir pari. Samtals er hann á sjö höggum yfir pari og þarf hann því að leika vel síðustu níu holurnar ætli hann sér áfram.

Hérna má sjá stöðuna í mótinu.