Guðmundur fór vel af stað í Írlandi
Guðmundur Ágúst Kristjánsson GR lék vel á fyrsta degi Stone Irish Challenge mótsins sem er hluti af Áskorendamótaröðinni. Margir kylfingar eiga enn eftir að ljúka leik en eins og staðan er núna er Guðmundur aðeins tveimur höggum á eftir efstu mönnum
Guðmundur hóf leik á 10. holu í dag og lék hann virkilega vel framan af. Fyrri níu holurnar lék hann á þremur höggum undir pari þar sem hann fékk þrjá fugla og restina pör. Eftir örn á annarri holunni var Guðmundur kominn fimm högg undir par og í efsta sætinu.
Hann fékk svo skolla á þriðja en vann höggið til baka á fimmtu holu með fugli. Þrír skollar á síðustu fjórum gerðu það aftur á móti að verkum að hann endaði hringinn á 70 höggum, eða tveimur höggum undir pari.
Eins og staðan er núna er Guðmundur jafn í 13. sæti en efstu menn eru á fjórum höggum undir pari.