Fréttir

Guðrún Brá: Ekki enn búin að átta mig á þessu
Guðrún Brá og Björgvin á góðri stundu í lokaúrtökumótinu. Mynd: LET.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
sunnudaginn 26. janúar 2020 kl. 18:29

Guðrún Brá: Ekki enn búin að átta mig á þessu

Líkt og Kylfingur greindi frá tryggði Guðrún Brá Björgvinsdóttir GK sér í dag þátttökurétt á Evrópumótaröð kvenna. Guðrún Brá lék hringina fimm í lokaúrtökumótinu á 3 höggum yfir pari í heildina og endaði að lokum í 10. sæti af þeim 120 kylfingum sem tóku þátt í mótinu.

Blaðamaður Kylfings heyrði í Guðrúnu sem var mætt upp á flugvöll stuttu eftir lokahringinn.

Fyrir lokahringinn var ljóst að Guðrún mætti ekki misstíga sig því mikill munur var á þátttökurétti hennar færi svo að hún myndi ekki enda á meðal 20 efstu. Guðrún var meðvituð um stöðuna og viðurkenndi að spennan hefði gert vart um sig undir lokin.

„Það munaði miklu að enda í topp-20 því ef ég hefði ekki náð því þá hefði ég verið í flokknum fyrir neðan flokkinn sem Valdís Þóra er í og hefði þar af leiðandi fengið færri mót.

Niðurskurðarlínan var +4 fyrir lokahringinn og ég var +1 fyrir lokadaginn. Ég var alveg búin að gefa mér það að niðurskurðan yrði ekki lægri en +3 en ég vissi ekki stöðuna á neinum tímapunkti í dag og vildi ekki vita hana.

Pútterinn var ískaldur í dag en ég vissi samt að ég mátti alveg fá skolla á lokaholunni þó ég hafi auðvitað ekki verið að reyna það,“ sagði Guðrún og hló. „Það var smá spenna í lokin.“


Skorkort Guðrúnar í mótinu.

Slátturinn var heilt yfir góður hjá Guðrúnu og skilaði það sér í skorinu sem heilt yfir mjög stöðugt. Guðrún var sjaldan í vandræðum en hefði viljað setja fleiri pútt niður fyrir fuglum.

„Ég var heilt yfir að slá mjög vel í mótinu. Þriðji hringurinn var eini hringurinn sem ég var ekki að koma mér í nein alvöru fuglafæri, allt svona 7-10 metra pútt sem eiga ekkert endilega að detta. Það eru mjög stórar flatir á vellinum þannig að ég hitti margar flatir en ég var bara ekki að koma mér í nógu góð færi.

Ef pútterinn hefði verið aðeins heitari þá hefði ég getað endað ofar, en maður getur auðvitað alltaf fundið eitthvað í svona mótum.“

Guðrún var ekki ein úti í mótinu en faðir hennar, Björgvin Sigurbergsson, var með henni á pokanum. Björgvin hefur nokkrum sinnum ferðast með Guðrúnu Brá út í mót en verður hann kylfusveinn hjá henni á Evrópumótaröðinni?

„Ég er í raun ekki ennþá búin að átta mig á þessu, ég kláraði bara mótið og er nú komin upp á flugvöll þannig ég er ekki komin lengra en það. Ég ætla bara að koma mér heim og svo fer ég yfir stöðuna þá.“

„Ég held að ég sé að fara til Ástralíu eftir mánuð, Þeir voru að gefa út mótaskrána og það er hellingur í boði núna miðað við síðustu ár þannig að ég ætti að komast inn í flest mót.“

Guðrún hefur undanfarin ár leikið á LET Access mótaröðinni sem er eins konar önnur deild í atvinnugolfi kvenna í Evrópu. Hún hefur þó fengið boð í nokkur mót á Evrópumótaröðinni og býst ekki við að stökkið verði mikið þegar hún byrjar að leika vikulega með nokkrum af bestu kylfingum Evrópu.

„Mót er auðvitað bara mót. Þetta er ekkert allt öðruvísi [en á LET Access] en umgjörðin er auðvitað betri og það eru meiri peningar í boði sem hjálpar en á móti eru ferðalögin lengri. Umgjörðin er klárlega betri en fyrir mann sjálfan er þetta bara venjulegur dagur í vinnunni.“