Fréttir

Haraldur lék vel á þriðja degi
Haraldur Franklín Magnús.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
föstudaginn 13. nóvember 2020 kl. 18:20

Haraldur lék vel á þriðja degi

Haraldur Franklín Magnús lék vel á þriðja degi Andalucía Challenge de Cadíz mótsins sem fram fer á Áskorendamótaröðinni. Leikið er á Novo Snacti Petri golfsvæðinu sem margir Íslendingar kannast eflaust við en Íslendingar hafa ferðast þangað í golfferðir í mörg ár.

Fyrir daginn var Haraldur á samtals á parinu og jafn í 26. sæti. Hann byrjaði daginn á skolla en flottur kafli um miðbik hrings kom honum á tvö högg undir pari. Einn skolla og einn fugl á síðustu sex holunum gerði það að verkum að hann endaði hringinn á tveimur höggum undir pari, eða 70 höggum.

Eftir daginn er Haraldur jafn í 17. sæti og á hann góðan möguleika á að enda á meðal 10 efstu þar sem kylfingar sem eru á fjórum höggum undir pari eru jafnir í sjöunda sæti. Hans besti árangur til þessa er 33. sæti en hann náði því fyrr í haust á Northern Ireland Open mótinu.

Guðmundur Ágúst Kristjánsson var einnig á meðal keppenda. Hann lék fyrstu tvo hringi mótsins á samtals níu höggum yfir pari og komst því ekki í gegnum niðurskurðinn.

Hérna má sjá stöðuna í mótinu.