Heiðrún Anna með tveggja högga forskot að loknum fyrsta hring á Akranesi
Heiðrún Anna Hlynsdóttir úr GOS leiðir eftir fyrsta hring á B59 Hotel mótinu á Garðavelli á Akranesi. Hún kom í hús á 71 höggi eða á 1 höggi undir pari og á tvö högg á þær Maríu Eir Guðjónsdóttur og Berglindi Erlu Baldursdóttur en báðar eru þær úr GM.
B59 Hotel mótið er fyrsta mót ársins á GSÍ mótaröðinni en alls telur mótaröðin sex mót.
Keppnisfyrirkomulag B59 Hotel mótsins er höggleikur en leiknir verða þrír hringir á jafn mörgum dögum. Ræst verður út alla þrjá keppnisdagana frá klukkan 8:00. Eftir annan keppnisdag verður skorið niður en 70% keppenda í bæði karla og kvennaflokki komast áfram á lokahringinn.
Heiðrún Anna fékk fjóra fugla og þrjá skolla á hringnum.

María Eir náði því ótrúlega afreki að fá albatross á hringnum. Hún fékk að auki tvo fugla og sex skolla. Berglind fékk fjóra fugla og fimm skolla á hringnum.

