Fréttir

Heimslisti karla: Wolff upp um 1524 sæti
Matthew Wolff
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
mánudaginn 8. júlí 2019 kl. 09:00

Heimslisti karla: Wolff upp um 1524 sæti

Nýr heimslisti karla var birtur í gær eftir mót helgarinnar. Hástökkvari vikunnar er sigurvegarinn á PGA móti helgarinnar, nýliðinn Matthew Wolff. Wolff gerðist atvinnumaður fyrir rétt um tveimur vikum og gerði sér svo lítið fyrir og sigraði á 3M Open mótinu. 

Í síðustu viku var Wolff í 1.659 sæti heimslistans en hann stökk um um 1.524 sæti á nýjum lista og situr nú í 135. sæti. 

Engar breytingar urðu á efstu fimm kylfingunum en Bryson DeChambeu fer upp um tvö sæti og situr nú í 6. sæti listans. Francesco Molinari, Justin Thomas og Patrick Cantlay falla allir niður um eitt sæti en Jon Rahm kemur aftur inn á topp 10 og situr nú í 8. sæti listans.

Haraldur Franklín Magnús og Axel Bóasson stóðu sig vel á Nordic Golf mótaröðinni um helgina þar sem þeir enduðu í 2. og 3. sæti. Haraldur fer upp um 332 sæti á heimslistanum og situr nú í 1.053 sæti listans. Axel fer upp um 376 sæti og er nú í 1.358 sæti listans.

Hér má sjá listann í heild sinni.