Fréttir

Johnson ætlar heim að æfa púttin eftir sigurinn
Dustin Johnson. Mynd: Getty Images.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
mánudaginn 8. febrúar 2021 kl. 12:00

Johnson ætlar heim að æfa púttin eftir sigurinn

Dustin Johnson sigraði í gær á Saudi International mótinu í annað skiptið á þremur árum. Johnson, sem situr í efsta sæti heimslistans, spilaði hringina fjóra á 15 höggum undir pari og fagnaði að lokum öruggum sigri þrátt fyrir að hafa átt töluvert inni, til að mynda á flötunum.

„Þetta var mjög góð vika, mér fannst ég spila mjög stöðugt alla dagana. Kom mér í mörg góð færi,“ sagði Johnson eftir sigurinn. „Ég púttaði ekki jafn vel og ég hefði viljað en það var augljóslega nóg til að sigra í dag.

Aðstæðurnar voru erfiðar, sérstaklega tvo daga, en ég sló vel, ég drævaði sérstaklega vel. Ég er augljóslega mjög ánægður með sigurinn og spenntur en ég þarf að komast heim og vinna aðeins í púttunum.

Það er erfitt að vinna á Evrópumótaröðinni og PGA mótaröðinni sama hvar þú ert á heimslistanum. En já, það að vinna sem efsti kylfingurinn er klárlega gott, og gefur mér aðeins betra forskot. Sigurinn gefur mér gott sjálfstraust fyrir þetta ár.“