Karlalandslið Íslands hafnaði í 16. sæti á EM
Ísland hafnaði í 16. sæti á Evrópumóti karlalandsliða en leikið var á hinum goðsagnakennda Royal St. George’s velli á Englandi þar sem Opna mótið hefur 15 sinnum farið fram, síðast á síðasta ári. Íslenska liðið hafnaði í 16. sæti í keppni í höggleik, sem fram fór fyrstu tvo keppnisdagana og raðaði liðum í riðla. Átta efstu liðin léku í A-riðli í holukeppni um Evrópumeistaratitilinn, átta næstu lið léku um 9.-16. sæti í B-riðli, þar á meðal okkar menn. Í C-riðli léku þá þau þrjú lið, sem höfnuðu í neðstu þremur sætunum eftir höggleikinn, um neðstu sætin.
Í fyrsta leik í holukeppni töpuðu okkar menn fyrir Hollendingum 3-2. Annar leikurinn tapaðist einnig 3-2 er Wales var mótherjinn. Í lokaleiknum léku strákarnir okkar því um 15. sætið þar sem mótherjinn var Austurríki. Leikurinn tapaðist 3-2, rétt eins og hinir leikirnir og 16. sætið var niðurstaðan - þrjú töp með minnsta mun.
Hákon Örn Magnússon vann tvo af þremur leikjum sínum í tvímenningi og Hlynur Bergsson vann annan leikinn af tveimur í tvímenningi og leik sinn í fjórmenningi ásamt Kristófer Orra Þórðarsyni.

