Fréttir

Kevin Na fór best af stað á Sony Open
Kevin Na sigraði á mótinu í fyrra og er í forystu eftir fyrsta hringinn í ár.
Nökkvi Gunnarsson
Nökkvi Gunnarsson skrifar
föstudaginn 14. janúar 2022 kl. 10:27

Kevin Na fór best af stað á Sony Open

Kevin Na lék best allra á fyrsta hring Sony Open mótsins sem hófst í Honolulu í gær. Na sem á titil að verja frá síðasta ári lék hringinn á 61 högg eða 9 höggum undir pari.

Hinn 51 árs gamli Jim Furyk var lengi í forystu á fyrsta hringnum. Furyk lék frábærlega í gær og fór meðal annars holu í höggi á 17. brautinni. Hann endaði hringinn á 8 höggum undir pari, einu höggi á eftir Na. Jim Furyk sigraði á mótinu fyrir heilum 26 árum síðan. Til marks um það hvað tímarnir hafa breyst var verðlaunafé mótsins það árið 216.000 dollarar en er nú í ár 1.350.000 dollarar. Það verður fróðlegt að fylgjast með því hvort Furyk nái að halda sér í toppbaráttunni en Waialae völlurinn er með þeim stystu á mótaröðinni og ætti að henta gamla manninum vel.

Margeir golfkennsla
Margeir golfkennsla

Russell Henley er jafn Furyk í öðru sætinu á 8 höggum undir pari en Henley sigraði á mótinu árið 2013.

Fimm kylfingar eru svo jafnir í fjórða sæti á 7 höggum undir pari.

Staðan í mótinu