Fréttir

Lék fyrsta hringinn á pari
Guðrún Brá Björgvinsdóttir.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
miðvikudaginn 23. september 2020 kl. 17:16

Lék fyrsta hringinn á pari

Guðrún Brá Björgvinsdóttir GK lék í dag fyrsta hringinn á Lavaux Ladies Open mótinu á parinu. Guðrún er jöfn í 21. sæti eftir fyrsta keppnisdaginn. Alls hófu 74 kylfingar leik í morgun í Sviss í mótinu sem er hluti af LET Access mótaröðinni í golfi, þeirri næst sterkustu í Evrópu.

Guðrún fór snemma út og byrjaði reyndar ekki vel þar sem hún fékk þrjá skolla á fyrstu fjórum holum dagsins. Hún lék fyrri níu á 39 höggum en lék töluvert betur á seinni níu eða 33 höggum þar sem hún fékk þrjá fugla og tapaði ekki höggi.


Skorkort Guðrúnar.

Frakkinn Agathe Sauzon er efst í mótinu á 6 höggum undir pari, tveimur höggum á undan næsta kylfingi.

Annar keppnisdagur mótsins fer fram á morgun, fimmtudag, en mótið klárast á föstudaginn.

Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.