Örninn #galvin 2
Örninn #galvin 2

Fréttir

Myndband: Mirim Lee sigraði á ANA Inspiration eftir bráðabana
Mirim Lee.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
sunnudaginn 13. september 2020 kl. 22:23

Myndband: Mirim Lee sigraði á ANA Inspiration eftir bráðabana

Suður-kóreski kylfingurinn Mirim Lee fagnaði í dag sigri á ANA Inspiration risamótinu eftir þriggja manna bráðabana. Þetta er fjórði sigur Lee á LPGA mótaröðinni en fyrsti risameistaratitill hennar.

Þær Mirim Lee, Brooke M. Henderson og Nelly Korda enduðu jafnar eftir 72 holur á 15 höggum undir pari eftir mikla dramatík á síðustu holunni. Lee gerði sér lítið fyrir og vippaði í holu á 18. holunni fyrir erni á meðan Henderson fékk fugl og Korda missti fuglapútt fyrir sigrinum.

Því næst héldu þær í bráðabana sem fór fram á 18. holunni sem er par 5 hola og býður upp á möguleika á að slá inn á flöt í tveimur höggum. Korda missti upphafshögg sitt til vinstri og þurfti því að leggja upp á meðan þær Henderson og Lee reyndu við flötina í tveimur höggum.

Henderson var heppin að innáhögg hennar rataði ekki í tjörnina fyrir framan flötina en bolti hennar stöðvaðist í hallanum á milli flatar og tjarnarinnar á meðan Lee sló yfir flötina.

Lee var sú eina sem náði fuglinum þegar hún setti niður fínt pútt og þar með var sigurinn í höfn. Hún fagnaði því að sjálfsögðu með því að hoppa í tjörnina við flötina eins og tíðkast hjá sigurvegara mótsins.

Hér er hægt að sjá lokastöðuna í mótinu.

Sigrarnir fjórir hjá Lee á LPGA mótaröðinni:

2014: Meijer LPGA Classic
2014: Reignwood LPGA Classic
2017: Kia Classic
2020: ANA Inspiration