Fréttir

Myndband: Palmer þurfti 6 högg til að komast úr glompu
Ryan Palmer.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
sunnudaginn 16. febrúar 2020 kl. 08:00

Myndband: Palmer þurfti 6 högg til að komast úr glompu

Það má með sanni segja að Ryan Palmer hafi átt erfiðan dag á vellinum í gær á þriðja hring Genesis Invitational mótsins. Hann lék á 81 höggi, eða 10 höggum yfir pari, og er í neðsta sæti af þeim kylfingum sem komust í gegnum niðurskurðinn á níu höggum yfir pari.

Á hringnum í gær fékk Palmer engu að síður einn örn og tvo fugla en hann fékk aftur á móti sex skolla, einn tvöfaldan skolla og að lokum fékk hann níu á par 3 holu.

Það eitt og sér að fá níu á par 3 holu er alveg frásögufærandi en það eru eflaust margir sem spyrja sig að því hvernig honum tókst það. Palmer hóf leik á 10. braut og var á höggi yfir pari þegar að hann mætti á 14. holuna sem er tæplega 180 metra löng.

Upphafshöggið hjá Palmer fór beint í glompu sem er við flötinu og þar þurfti hann heil sex högg til þess að komast upp úr. Hann púttaði svo tvisvar sinnum og endaði holuna á níu.

Myndband af atvikuna má sjá hér að neðan en þegar það byrjar hefur hann nú þegar reynt tvisvar sinnum að koma boltanum upp úr.