Fréttir

Myndband: Stórt tækifæri fyrir Guðrúnu Brá
Guðrún Brá ásamt föður sínum Björgvini.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
þriðjudaginn 10. nóvember 2020 kl. 19:54

Myndband: Stórt tækifæri fyrir Guðrúnu Brá

Atvinnukylfingurinn Guðrún Brá Björgvinsdóttir hefur leikið á Evrópumótaröð kvenna á þessu ári. Mikil röskun hefur orðið á mótahaldi það sem af er ári vegna kórónuveirufaraldursins. Þó hafa nokkur mót farið fram á haustmánuðum og mun á fimmtudaginn eitt af stærstu mótum sögunnar á Evrópumótaröð kvenna fara fram.

Mótið ber nafnið Aramco Saudi Ladies International en mótið fer fram í Sádi Arabíu. Ásamt því að þetta verði í fyrsta skipti sem mót á mótaröðinni fer fram í landinu þá verður verðlaunafé eitt það mesta í sögu mótaraðarinnar, eða 1 milljón Bandaríkjadala.

Guðrún er ekki ein á ferð því faðir hennar og margfaldur Íslandsmeistari í höggleik, Björgvin Sigurbergsson, verður með henni á pokanum í næstu tveimur mótum sem bæði fara fram í Sádi Arabíu.

Blaðamaður Kylfings heyrði í þeim feðginum og spurði þau út í hin ýmsu málefni, til að mynda undirbúning fyrir mótið á tímum Covid-19.

„Undirbúningur hefur bara gengið vel þótt að auðvitað setti Covid soldið strik í reikninginn. Ég hef bara reynt að gera það besta úr aðstæðum. Golflega séð þá æfði ég kannski ekki alveg eins vel og fyrir önnur mót en maður reyndi bara að hafa smá hugmyndaflug og gera sig tilbúna á annan hátt.“

Flestar íþróttir sem hafa verið leyfðar hafa þurft að fylgja ströngum reglum og er Evrópumótaröð kvenna ekki undanskilin. Þegar Guðrún var spurð út í aðstæður og hvernig mótið legðist í hana sagði hún að mótið legðist vel í sig en að reglurnar væru strangar. Hún bætti þó við að veðrið væri frábært.

„Það er allavegana geggjað veður, 30 gráður og sól. Mótið leggst mjög vel í mig. Frábært að fá að spila aftur. Það eru mjög strangar reglur hérna varðandi sóttvarnir. Það þurftu allir að fara í test áður en þeir komu til landsins, svo strax aftur þegar við komum til Sádí, förum svo í þriðja testið á morgun og seinasta testið daginn áður en við förum. Þú mátt vera í “bubblu” með einum öðrum spilara annars máttu ekki vera í neinum nánum samskiptum við neinn annan en caddíinn þinn. Svo megum við bara vera á golfvellinum og á hótelinu.“

Eins og áður sagði er mótið eitt af þeim stærri sem hafa verið haldin af mótaröðinni og því stórt tækifæri fyrir Guðrúnu að taka þátt í því. Hún kveðst mjög spennt fyrir þessu stóra tækifæri.

„Já mjög spennandi að fá að taka þátt í þessu. Frábært framtak hjá þeim að koma kvennagolfi (íþróttum) á framfæri og hvetja konur áfram.“

Að lokum voru þau feðgin spurð út í ferðalagið og hvort þau tækju eftir miklum menningarmun. Eins og svarið gefur til kynna er ljóst að kylfingar fá að gera lítið annað en að vera á hótelinu og golfvellinum.

„Ferðalagið gekk bara vel en var frekar langt. Tvær nætur sem við sváfum lítið þannig maður var smá ruglaður fyrsta daginn hérna. Erfitt að segja um menningarmun vegna þess að við erum í raun og veru bara inni á hótelherberginu okkar ef við erum ekki úti á golfvelli að spila. En auðvitað er þetta allt öðruvísi en Ísland.“

Fékk vinnu í Saudí Arabiu. Gudrun Bra Bjorgvinsdottir 😀⛳️⛳️⛳️

Posted by Björgvin Sigurbergsson on Tuesday, November 10, 2020