Prósjoppan
Prósjoppan

Fréttir

Myndband: Tiger frumsýndi nýja golfvöllinn sinn
Justin Thomas, Tiger Woods, Rory McIlroy og Justin Rose kepptu á Payne's Valley vellinum í gær.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
miðvikudaginn 23. september 2020 kl. 10:20

Myndband: Tiger frumsýndi nýja golfvöllinn sinn

Tiger Woods fékk stórkylfingana Jack Nicklaus, Gary Player, Justin Thomas, Justin Rose og Rory McIlroy með sér í lið til að frumsýna nýjan golfvöll sem hann hannaði, Payne's Valley, og er óhætt að segja að völlurinn hafi litið vel út.

Woods og fyrirtækið hans TGR Design hönnuðu völlinn sem er staðsettur í Missouri fylki í Bandaríkjunum. Þetta er fyrsti völlurinn sem Woods hannar í Bandaríkjunum sem er opinn almenningi og er nafnið í höfuðið á Payne Stewart. Fjölskylda hans var á staðnum þegar völlurinn opnaði formlega í gær.

Woods og Thomas kepptu á móti þeim McIlroy og Rose í holukeppni og var allt jafnt eftir 18 holur. Því héldu þeir á 19. holu vallarins sem er gullfalleg 110 metra löng par 3 hola eins og sjá má hér fyrir neðan. Þar slógu þeir Jack Nicklaus og Gary Player einnig inn á nýju flötina.

Justin Thomas endaði næstur holu á 19. holunni og fögnuðu því Thomas og Woods sigri.

Hér fyrir neðan má sjá brot af því besta frá opnun Payne's Valley: