Fréttir

Nordic Golf: Guðmundur endaði í 7. sæti á Spáni
Guðmundur Ágúst Kristjánsson.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
miðvikudaginn 11. mars 2020 kl. 13:55

Nordic Golf: Guðmundur endaði í 7. sæti á Spáni

Guðmundur Ágúst Kristjánsson GR, Bjarki Pétursson GKB og Andri Þór Björnsson GR léku í dag lokahringinn á PGA Catalunya Resort meistaramótinu sem fór fram á Nordic Golf mótaröðinni. Mótið var haldið á PGA Catalunya golfsvæðinu á Spáni sem er rétt fyrir utan Barselóna en þar eru tveir vellir, Stadium og Tour.

Lokahringur mótsins fór fram á Stadium vellinum í dag og lék Guðmundur Ágúst best af íslenska hópnum þegar hann kom inn á pari vallarins. Guðmundur endaði mótið samtals á 7 höggum undir pari sem skilaði honum í 7. sæti.

Jeppe Pape Huldahl sigraði á 10 höggum undir pari, þremur höggum á undan Guðmundi, en þetta er annað mótið í röð sem hann vinnur.

Bjarki Pétursson lék lokahringinn á tveimur höggum yfir pari og endaði í 21. sæti á 2 höggum undir pari í heildina. Með þessum árangri heldur hann áfram að vinna sér inn stig á stigalistanum en hann var efstur af íslenska hópnum á listanum í 27. sæti fyrir mót.

Að lokum endaði Andri Þór Björnsson GR í 44. sæti í mótinu á 3 höggum yfir pari í heildina eftir að hafa leikið lokahringinn á 4 höggum yfir pari.

Hér er hægt að sjá lokastöðuna í mótinu.