Fréttir

PGA: Danskur nýliði í forystu
Sebastian Cappelen. Mynd: golfsupport.nl.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
fimmtudaginn 23. janúar 2020 kl. 23:55

PGA: Danskur nýliði í forystu

Fyrsti hringur Farmers Insurance Open fór fram í dag og líkt og Kylfingur greindi frá fyrr í kvöld er Tiger Woods með í sínu fyrsta móti á árinu.

Eftir fyrsta keppnisdag eru þeir Sebastian Cappelen og Keegan Bradley jafnir í forystu á sex höggum undir pari. Risameistarann Bradley þekkja flestir en líklega hafa færri heyrt um Cappelen.

Cappelen er 29 ára gamall Dani sem er á sínu fyrsta tímabili á PGA mótaröðinni. Hann endaði í 16. sæti á Korn Ferry mótaröðinni í fyrra og hlaut þannig þátttökurétt á PGA mótaröðinni.

Cappelen náði flottum árangri um síðustu helgi þegar hann endaði í 6. sæti á The American Express og er það besti árangurinn hans á PGA mótaröðinni til þessa.

Níu kylfingar deila öðru sæti á 5 höggum undir pari en þar á meðal er Rory McIlroy sem getur með sigri komist í efsta sæti heimslistans. McIlroy var heitur á pútternum í dag en alls fékk hann sjö fugla og tvo skolla á hring dagsins.

Annar hringur mótsins fer fram á morgun, föstudag. Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.