Fréttir

PGA: Hatton hélt uppteknum hætti og jafnaði vallarmetið á fyrsta hring
Tyrrell Hatton.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
föstudaginn 16. október 2020 kl. 18:00

PGA: Hatton hélt uppteknum hætti og jafnaði vallarmetið á fyrsta hring

Annar hringur CJ Cup mótsins hófst fyrir skömmu en á fyrsta degi var það Englendingurinn Tyrrell Hatton sem lék best allra. Hatton gerði sér lítið fyrir og jafnaði vallarmetið á Shadow Creek vellinum.

Hatton fagnaði einum af stærstu sigrum ferilsins um síðustu helgi þegar að hann bar sigur úr býtum á BMW PGA Championship mótinu sem er stærsta mót ársins sem haldið er eingöngu af Evrópumótaröðinni. Mótið er leikið í London og þurfti Hatton því að ferðast yfir átta tímabelti til að komast til Las Vegas þar sem CJ Cup mótið fer fram. Það kom þó ekki að sök og var Hatton á fimm höggum undir pari eftir fimm holur í gær. Hringinn endaði hann á að leika á 65 höggum, eða sjö höggum undir pari, þar sem að hann fékk einn örn, sjö fugla, tvo skolla og restina pör.

Næstu menn léku á 66 höggum í gær en eins og áður sagði er annar hringur hafinn og er Xander Schauffele búinn að jafna við Hatton á sjö höggum undir pari. Schauffele er á höggi undir pari í dag.

Hatton á enn eftir að hefja leik.

Hérna má sjá stöðuna í mótinu.