Fréttir

PGA hefur prófanir á  nýjum reglum fyrir leikhraða í vikunni
Bryson DeChambeau er þekktur fyrir að taka sinn tíma í höggin
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
þriðjudaginn 14. janúar 2020 kl. 09:00

PGA hefur prófanir á nýjum reglum fyrir leikhraða í vikunni

Nýjar reglur voru kynntar af PGA mótaröðinni á síðasta ári, þar á meðal reglur um leikhraða. Nú er komið að því að prófa hvernig reglurnar virka og munu prófanir á leikhraða reglunum hefjast á næsta PGA móti, American Express mótinu sem hefst nú á fimmtudaginn.

Eins og reglurnar voru áður þá voru leikmenn tímamældir ef hollið þeirra féll aftur úr. Ef leikmaður tók meira en 50 sekúndur í að slá högg fékk hann aðvörun og í annað skiptið sem það gerðist fékk hann eitt högg í refsingu. Það gerðist þó sjaldan að leikmenn fengu refsingu þrátt fyrir kvartanir yfir hægum leik og því tilefni til að endurskoða fyrirkomulagið.

Nú verður sá háttur hafður á að í stað þess að fylgjast með hollum mun PGA mótaröðin hafa lista yfir þá leikmenn sem þarf að fylgjast með. Valið verður inn á listann samkvæmt þessum atriðum:

  • Ef leikmenn taka meira en 60 sekúndur í að slá högg án þess að ástæða sé fyrir því þá eru þeir tímamældir. Ef þeir fara ekki yfir tímamörkin tvær holur í röð þá verður tímamælingu hætt.
  • Ef leikmaður tekur meira en 120 sekúndur í að slá högg án þess að ástæða sé fyrir því þá er hann tímamældur restina af hringnum.
  • Listinn verður uppfærður vikulega en sérhver leikmaður sem tekur að meðaltali 45 sekúndur eða meira í að slá högg yfir 10 móta tímabil mun vera á listanum, ásamt þeim sem fara tvisvar yfir 120 sekúndna mörkin í einu móti.

Leikmenn munu svo líkt og áður fá viðvörun við fyrsta brot á tímamörkum og síðan refsingu. Auk þess þarf að greiða sekt fyrir brotin, 50.000 dollara (um 6 milljónir króna) fyrir annað brot á tímamörkum og 20.000 dollara (um 2,5 milljónir króna) fyrir öll brot eftir það.