Örninn/kerrur
Örninn/kerrur

Fréttir

PGA: Magnaður lokahringur hjá McIlroy
Rory McIlroy.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
sunnudaginn 9. júní 2019 kl. 21:41

PGA: Magnaður lokahringur hjá McIlroy

RBC Canadian Open mótið kláraðist í kvöld á PGA mótaröðinni. Það var Rory McIlroy sem fagnaði sigri eftir hreint út sagt magnaðan lokahring. Hann sýndi mikla yfirburði á lokahringnum og endaði mótið sjö höggum á undan næstu mönnum.

Fyrir daginn var McIlroy jafn í efsta sætinu á 13 höggum undir pari ásamt Webb Simpson og Matt Kuchar. Það varð þó fljótt ljóst í hvað stefndi því McIlroy byrjaði daginn á fimm fuglum á fyrstu sjö holunum. Fimm undir á fyrri níu holunum varð raunin. Á síðari níu holunum fékk hann fjóra fugla í röð á holum 11 til 15 og var því ljóst að hann þyrfti tvo fugla til viðbótar til að leika á 59 höggum.

McIlroy fékk aftur á móti sinn fyrsta skolla á 16. holunni en fylgdi því eftir með erni á 17. holunni. Fugl á 18. þýddi að hann léki á 59 höggum en annað höggið endaði í glompu og varð hann að sætta sig við skolla á lokaholunni. Hann endaði því hringinn á 61 höggi, eða níu höggum undir pari, og endaði hann mótið á samtals 22 höggum undir pari.

Shane Lowry og Webb Simpson enduðu jafnir í öðru sæti á samtals 15 höggum undir pari.

Hérna má sjá lokastöðuna í mótinu.