PGA mótaröðin leyfir takmarkaðan fjölda áhorfenda á Bermuda Championship
PGA mótaröðin hefur ákveðið að leyfa takmarkaðan fjölda áhorfenda á Bermuda Championship mótinu sem fer fram dagana 29. október til 1. nóvember næstkomandi.
Þó svo að þetta verði ekki fyrsta mótið sem PGA mótaröðin hleypir áhorfendum inn á svæðið eftir kórónuveirufaraldurinn reið yfir þá verður þetta fyrsta mótið sem leyfir almenningi að mæta á svæðið því að um síðustu helgi á Corales Puntacana Resort and Club Championship mótinu var 500 einstaklingum boðið að horfa á mótið. Þar var þessum 500 einstaklingum aðeins leyft að fylgjast með 16. og 17. holunum.
Miðasala hófst í gær og mun fjöldi miða ákvarðast af reglum í landinu um það hversu margir mega vera saman í einu og sama rýminu. Allir áhorfendur munu vera mældir þegar þeir mæta á svæðið og munu allir þurfa að notast við grímur.
Ástæða þess að þetta mót er valið er sú að Bermúda hefur komið vel út úr faraldrinum. Aðeins 200 skráð tilfelli eru frá byrjun faraldursins.