Örninn 2025
Örninn 2025

Fréttir

PGA: Sigurvegari helgarinnar var hættur í golfi fyrir átta árum
Nate Lashley.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
mánudaginn 1. júlí 2019 kl. 17:22

PGA: Sigurvegari helgarinnar var hættur í golfi fyrir átta árum

Árið 2004, þegar Nate Lashley var 21 árs gamall háskólakylfingur, ferðaðist kylfingurinn efnilegi með liði sínu í Arizona til Oregon þar sem NCAA svæðismót fór fram. Foreldrar hans, Rod og Char Lashley, og kærasta, Leslie Hofmeister, ferðuðust með til að fylgjast með honum spila en þetta átti eftir að vera þeirra síðasta stund saman.

Eftir mótið brotlenti flugvél foreldra Lashley með þeim afleiðingum að Leslie og foreldrarnir létu öll lífið. Aðspurður eftir sigurinn sagðist Lashley auðvitað hafa hugsað til þeirra.

Örninn 2025
Örninn 2025

„Mér var hugsað til þeirra. Á sumum tímapunktum er það ekki auðvelt en þetta fer í gegnum hugann og það mun alltaf vera þannig hjá mér.

Ég husga um foreldra mína alla daga. Ég varð tilfinninganæmur þegar ég labbaði 18. holuna meira að segja áður en ég sló annað höggið. Án þeirra væri ég ekki hér í dag.“ sagði Lashley.

Ári eftir flugslysið hræðilega gerðist Lashley atvinnukylfingur og reyndi fyrir sér á minni atvinnumótaröðum um Bandaríkin. Sjö árum seinna, árið 2012, hafði lítið sem ekkert gengið hjá honum og ákvað hann á þeim tímapunkti að gefast upp á golfinu. Í kjölfarið undirbjó hann sig fyrir að verða fasteignasali og byrjaði að selja hús. Það átti þó einungis eftir að standa yfir í nokkra mánuði áður en hann tók kylfurnar aftur af hillunni.

Árið 2015 komst Lashley inn á PGA Latinoamerica mótaröðina þar sem hann náði loksins að sýna sitt rétta andlit á golfvellinum sem atvinnukylfingur. Tveimur árum seinna var hann svo kominn með þátttökurétt á PGA mótaröðinni. Þátttaka hans á PGA mótaröðinni hefur hins vegar ekki gengið eins og í sögu og átti hann í raun ekki að vera með þátttökurétt á móti helgarinnar.

Lashley komst inn í mótið þegar kylfingur dró sig úr leik vegna meiðsla. Fjórum hringjum seinna var hann orðinn sigurvegari á sterkustu mótaröð heims og kominn með þátttökurétt á Opna risamótinu sem fer fram eftir tvær vikur og Masters og PGA risamótunum sem fara fram á næsta ári.