Örninn #galvin
Örninn #galvin

Fréttir

Poulter hætti keppni vegna meiðsla
Ian Poulter. Mynd: golfsupport.nl.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
laugardaginn 2. nóvember 2019 kl. 11:00

Poulter hætti keppni vegna meiðsla

Ian Poulter lék fyrstu tvo hringina á HSBC heimsmótinu meiddur en ákvað að hætta keppni fyrir þriðja hringinn. Á þeim tímapunkti var Poulter á 3 höggum yfir pari og í kringum 60. sæti af 78 kylfingum. 

Englendingurinn greindi fyrst frá meiðslum sínum á úlnlið á fimmtudaginn í gegnum samfélagsmiðla en spilaði þrátt fyrir það fyrstu tvo dagana.

„Farinn aftur til Orlando. Reyndi að sjá til hvort verkurinn myndi minnka þannig að ég gæti orðið samkeppnishæfur en ég var einfaldlega að berjast við að spila á parinu,“ sagði Poulter á Twitter síðu sinni eftir annan hringinn. „Ég kom ekki hingað til þess. Ég kom til að vinna og vera samkeppnishæfur. Tími til að fara heim..“

Það er óljóst hversu lengi Poulter verður frá keppni en meiðslin koma ekki á góðum tíma þar sem framundan eru þrjú síðustu mótin á Evrópumótaröð karla þar sem hann situr í 16. sæti stigalistans.