Rástímar klárir fyrir fyrsta mót ársins hjá Guðmundi og Haraldi
Fyrsta mót tímabilsins á Áskorendamótaröðinni hefst á morgun í Suður-Afríku þegar að Limpopo Championship mótið hefst. Leikið er á tveimur völlum, Euphoria vellinum og Koro Creek vellinum. Þeir Guðmundur Ágúst Kristjánsson og Haraldur Franklín Magnús verða báðir á meðal keppenda en þeir unnu sér inn þátttökurétt á mótaröðinni með góðum árangri á Nordic Golf mótaröðinni í fyrra.
Haraldur Franklín verður í fyrsta holli dagsins á Euphoria vellinum og hefur hann leik klukkan 6:30 að staðartíma, sem er 4:30 að íslenskum tíma. Með honum í holli verða þeir Ryan Tipping og Timon Baltl og byrja þeir á fyrstu holu.
Guðmundur leikur aftur á móti á Koro Creek vellinum og byrjar hann á 10. holu. Með honum í holli eru þeir Louis Albertse og Stanislav Matus og hefja þeir leik klukkan 10:20 að staðartíma, sem er 8:20 að íslenskum tíma.
Hægt verður að fylgjast með skori keppenda hérna.
Guðmundur Ágúst Kristjánsson.