Fréttir

Reed segist ekki vera svindlari
Patrick Reed.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
þriðjudaginn 10. desember 2019 kl. 16:00

Reed segist ekki vera svindlari

Patrick Reed hefur verið á vörum margra undanfarna daga eftir að hafa fengið dæmt á sig tvö vítishögg á þriðja hring Hero World Challenge mótsins fyrir það að bæta legu boltans.

Margir hafa tjáð sig um málið, þar á meðal Rory McIlroy og nú síðast Cameron Smith en hann leikur fyrir Alþjóðaliðið í Forsetabikarnum sem hefst á fimmtudaginn og er Reed hluti af bandaríska liðinu.

Reed hefur núna tjáð sig um málið og segist ekki vera sáttur við að menn séu að kalla sig svindlara þar sem um mistök hafi verið að ræða.

„Það er ekki rétta orðið yfir þetta,“ sagði Reed eftir æfingahring á Royal Melbourne vellinum þar sem Forsetabikarinn hefst á fimmtudaginn. „Í lok dags, ef þú gerir eitthvað óviljandi sem brýtur reglurnar, þá er það ekki svindl og ég var ekki að reyna að bæta leguna eða neitt því um líkt.“

Jafnframt sagði Reed að hann gæti ekki stjórnað því hvað aðrir segðu.

„Þú getur ekki stjórnað hvað aðrir segja um þig. Eina sem þú getur gert er að einbeita þér að því sem þú sjálfur getur stjórnað og ef þú gerir það þá ertu að gera eitthvað rétt í lífinu. Það er allir sem hafa skoðun á öllu og öllum, þess vegna getur þú ekki gert alla ánægða.“