Rory reynir við „ferilslemmuna“ í sjöunda skiptið
Það er hálf ótrúlegt að hugsa til þess að sjö árum eftir að Rory McIlroy vann sitt fjórða risamót á ferlinum sé hann enn að leita að fimmta titlinum. Mánuði fyrr hafði McIlroy unnið Opna mótið með sannfærandi hætti á Royal Liverpool og átti einungis eftir að sigra á Masters mótinu til að klára „ferilslemmuna“. Spurningin var ekki hvort heldur hvenær það myndi gerast.
Sex misheppnuðum tilraunum síðar er spurning hvort McIlroy takist að klára verkefnið á Augusta National, velli sem ætti að henta honum ágætlega. Vandamálið virðist hins vegar frekar vera sálfræðilegt en líkamlegt.
McIlroy hefur talað opinskátt og heiðarlega um baráttu sína á Masters mótinu en hann hefur engu að síður endað sex sinnum í topp-10 á síðustu sjö árum. Endurtekið hefur hann rætt um andlega hindrun sem hann þarf að komast yfir til að ná að klæðast græna jakkanum á sunnudegi.
Hann mun líklega neita því en spilamennska hans á seinni níu á Augusta National fyrir 10 árum situr situr enn í honum en þá kastaði hann frá sér sigrinum. Vissulega svaraði hann því með því að sigra á Opna banadaríska það árið með ótrúlegum yfirburðum en í hvert skipti sem hann mætir á Masters hefst umræðan og væntingar um að honum takist að klára „ferilslemmuna“ [að vinna öll fjögur risamótin].
Það er ómögulegt fyrir McIlroy að komast hjá þeirri tilhugsun en McIlroy hefur reynt allt í undirbúningi sínum til að ná réttu hugarfari og komast yfir síðustu hindrunina. Með hverju árinu sem líður verður hins vegar erfiðara að ná markmiðinu.
Í ár mætir McIlroy til leiks með nýjan sveifluþjálfara eftir slæma frammistöðu stuttu fyrir mót. Þjálfarinn heitir Pete Cowen og hefur þjálfað marga af bestu kylfingum heims. Því er ólíklegt að McIlroy takist að sigra svo stuttu eftir þær breytingar, en hver veit, kannski er þetta akkúrat það sem hann þurfti.
Masters mótið hefst á fimmtudaginn 8. apríl og klárast sunnudaginn 11. apríl. Dustin Johnson hefur titill að verja.