Saga Traustadóttir og Gunnlaugur Árni Sveinsson Landsmeistarar í golfhermum 2022
Fyrsta Landsmóti í golfhermum lauk í dag í Íþróttamiðstöð GKG en leikið var á Leirdalsvelli í TrackMan golfhermum. Heimafólkið, Saga Traustadóttir og Gunnlaugur Árni Sveinsson stóðu að lokum uppi sem sigurvegarar eftir hörku keppni og eru þau fyrstu Landsmeistarar í golfhermum á Íslandi.
Landsmótið hófst í janúar með undankeppni víðsvegar um land en yfir eitt hundrað kylfingar tóku þátt í henni. Mótinu lauk svo með úrslitakeppni í dag þar sem leiknar voru 36 holur. Seinni hringurinn var sendur út í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.
Karen Lind Stefánsdóttir úr GKG leiddi eftir fyrri umferðina á 2 höggum undir pari en Saga kom í hús á 1 höggi undir pari. Hin unga Karen Lind, lék ekki jafn vel á seinni hringnum en hún kom í hús á 4 höggum yfir pari. Saga fékk fjóra fugla á seinni níu og átti pressupútt fyrir pari og sigri á mótinu. Hún gerði engin mistök, setti púttið í og tryggði sér fyrsta titil Landsmeistara kvenna í golfhermum á Íslandi.

Gunnlaugur Árni Sveinsson úr GKG og Ólafur Marel Árnason úr NK voru efstir og jafnir á 4 höggum undir pari eftir fyrri umferðina. Ólafur Marel lék á pari á seinni hringnum, sem dugði aðeins í 5. sætið en kylfingar voru á umtalsvert betra skori á seinni hringnum í dag. Gunnlaugur Árni lék frábært golf og kom inn á 9 höggum undir pari á seinni hringnum eða á 13 höggum undir pari samanlagt. Kristófer Orri Þórðarson úr GKG, sem var í 4.-6. sæti á 2 höggum undir pari eftir fyrri umferðina, lék enn betur á seinni hringnum. Hann kom inn á 11 höggum undir pari og tryggði sér bráðabana við Gunnlaug með glæsilegu innáhöggi á 18. braut. Gunnlaugur setti einnig niður pressupútt fyrir pari á 18. braut sem reyndist heldur betur mikilvægt.
Í bráðabananum átti Gunnlaugur Árni gott upphafshögg og kom sér í vænlega stöðu fyrir innáhöggið á 1. braut. Kristófer Orri missti boltann aðeins til hægri og út fyrir braut en var þó í ágætis málum. Gunnlaugur sló fallegt högg inn á flöt og átti tæplega 4 metra eftir fyrir fugli. Kristófer lenti boltanum við holu en verandi í karganum fékk hann óhjákvæmilega svolítið rúll á boltann og átti tæpa 9 metra eftir að holu fyrir fugli. Kristófer missti púttið en Gunnlaugur negldi fuglinn með góðu pútti og tryggði sér fyrsta titil Landsmeistara karla í golfhermum á Íslandi.
Kylfingur tók nýkrýnda Landsmeistara í golfhermum tali. Saga sagði að þó það sé allt annað að spila inni en úti þá hafi myndast mikil spenna og að spennustigið hafi verið svipað og á mótum úti á velli. „Það voru líka nokkrir áhorfendur í síðasta púttinu, sem var mjög gaman. Maður reynir að „sóna“ út þegar maður er undir pressu. Það gekk í dag.“
Gunnlaugur tók undir orð Sögu og sagði að hjartslátturinn hafi verið hraðari en í venjulegu pútti í síðasta púttinu. „Ég var nokkuð meðvitaður um stöðuna og Guðmundur Kristjánsson sagði mér líka rétt áður en ég púttaði að ég yrði sennilega að setja í. Annars reyndi ég að halda mig við sömu rútínu allan tímann og það hjálpaði mér í dag.“
Kylfingur óskar þeim Sögu Traustadóttur og Gunnlaugi Árna Sveinssyni til hamingju með sigurinn. Þau eru Landsmeistarar í golfhermum 2022.
Landsmót hafa verið haldin víða um heim í TrackMan golfhermum en þetta er fyrsta landsmótið sem er í beinni útsendingu. Útsendingin var virkilega góð og mótið ótrúlega skemmtilegt og spennandi. Mót í golfhermum eru kærkomin viðbót við mótahald í golfi á Íslandi.

Karen Lind Stefánsdóttir – GKG, Saga Traustadóttir – GKG og Sara Kristinsdóttir – GM. Ljósmynd: Kristín María Þorsteinsdóttir/GSÍ

Kristófer Orri Þórðarson – GKG, Gunnlaugur Árni Sveinsson – GKG og Guðmundur Ágúst Kristjánsson - GKG. Ljósmynd: Kristín María Þorsteinsdóttir/GSÍ