Fréttir

Siggi Björgvins fór holu í höggi
Sigurður sæll og glaður eftir draumahöggið á Bergvíkinni.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
miðvikudaginn 19. október 2022 kl. 11:44

Siggi Björgvins fór holu í höggi

„Ég áttaði mig eiginlega ekki almennilega á þessu fyrr en ég kom heim því það er nú almennt ekki miklar líkur á því að fara holu í höggi,“ sagði Sigurður Björgvinsson, kylfingur í Golfklúbbi Suðurnesja en hann náði draumahögginu á Hólmsvelli í Leiru í gær.

Siggi var við golfleik á Hólmsvelli í Leiru í gær með góðum vinum sínum, Gunnari Oddssyni og Birni Bergssyni. Veðrið var gott og aðstæður góðar en smá vindur úr vestri. Þeir komu að frægustu golfholu á Íslandi, Bergvíkinni, 3. braut, og okkar maður tók upp 7-tré og hitt boltann vel sem flaug hátt og lenti inn á flöt, skammt frá glompubrún. Hliðarvindur var á holuna og hjálpaði eitthvað til því boltinn rúllaði rólega upp flötina nokkra metra og beint í holu. „Við horfðum á þetta félagarnir og fannst boltinn lengi á leiðinni í holu en ofan í fór hann. Ég var ósköp rólegur. Birni vinur minn var mun æstari og sendi þetta svo út í kosmosið eftir að hafa smellt af mér mynd,“ sagði Siggi þegar fréttamaður VF heyrði í honum. 

„Þetta var bara fullkomið högg og það var gaman að sjá hann rúlla í holuna. Ég var nokkra stund að meðtaka þetta þó ég viti af því að líkurnar eru ekki miklar á því að fara holu í höggi. Ég átti síðan flott upphafshögg á næsta teig, á 4. braut og lék ágætlega allan hringinn,“ sagði Siggi. 

Gunnar Oddsson, sem var ásamt Birni með Sigga í þessum hring fór holu í höggi á 16. braut í Leirunni í sumar og litlu munaði að Siggi fengi annað draumahögg þar í þessum sama hring. 

„Boltinn lenti eftir upphafshöggið vinstra megin aftarlega á flötinni og rúllaði svo til baka, rétt framhjá holunni og endaði um hálfan metra frá stöng. Fékk léttan fugl,“ sagði Siggi sem hefur gaman af íþróttinni. Hann hafði mikinn áhuga á stangveiði sem hann fór að stunda nokkuð mikið eftir fótboltaferilinn en það er auðveldara að fara út á golfvöll og hann vill bæta sig í íþróttinni. Sigurður var lengi einn af bestu knattspyrnumönnum Keflavíkur og landsins og á langan og farsælan feril að baki með Keflavík og KR. Hann byrjaði seint í golfi en fer af og til út á golfvöll með vinum sínum sem eru duglegir kylfingar.

„Maður byrjaði náttúrlega svo seint að maður getur ekki verið með miklar kröfur um getu en maður er alltaf að reyna að bæta sig. Það er nú eitt af því skemmtilega við golfið.“

Birnir smellti í sjálfu með Sigga og Gunnari eftir 9 holur til að fagna draumahöggi Sigga.